Álag á konur hvarvetna aukist í „kófinu“

Veffundur heildarsamtaka launafólks og Kvenréttindafélags Íslands í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna

9.3.2021

  • Mynd_8_mars

Konur upplifðu aukið álag og streitu vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins á fyrri helmingi síðasta árs. Ástæðan er m.a. sú að þær bera almennt ríkari ábyrgð inni á heimilunum en karlarnir.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur, lektors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, og Valgerðar S. Bjarnadóttur, nýdoktors við menntavísindasvið HÍ, á opnum veffundi sem haldinn var í gær, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Að fundinum stóðu ASÍ, BHM, BSRB, KÍ og Kvenréttindafélag Íslands. Fundarstjóri var Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Í erindi sínu fjölluðu þær Andrea og Valgerður um niðurstöður rannsóknar sem þær gerðu á áhrifum fyrstu bylgju faraldursins á daglegt líf íslenskra barnafjölskyldna. Fram kom að skertur skóladagur og aukið heimanám barna hafði almennt í för með sér verulegt viðbótarálag á mæðurnar. Ennig jókst álag á konur vegna þess að hlutverk þeirra á heimilum er í ríkari mæli en karla að sinna tilfinningalegum þörfum fjölskyldumeðlima og það lendir frekar á þeim en körlunum að halda utan um heimilsreksturinn og fjölskyldulífið. Þær Andrea og Valgerður bentu á að niðurstöður rannsóknar þeirra rími vel við erlendar rannsóknir á áhrifum kórónuveirufaraldursins sem nýlega hafa verið gerðar. Álag á konur hafi þannig hvarvetna aukist í „kófinu“.

Framlínukonur í aukinni hættu á að lenda í kulnun

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, flutti erindi um stöðu framlínukvenna í faraldrinum. Hún benti á að framlínustarfsfólk væri að stórum meirihluta konur og að faraldurinn hafi haft í för með sér gríðarlegt líkamlegt, andlegt og félagslegt álag á þær og þeirra nánustu: „Ég er stolt af því hvernig sjúkraliðar, næstum allt konur, stóðu sig í glímunni við versta faraldur sem þjóðin hefur upplifað í heila öld,“ sagði Sandra meðal annars. 

Hún benti á að margt framlínustarfsfólk væri í aukinni hættu á að lenda í kulnun vegna þess mikla álags sem það hefur mátt þola í störfum sínum í faraldrinum: „Undir þessu mikla álagi skiptir það miklu máli fyrir þau sem að mest lögðu á sig að upplifa þakklæti og viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag,“ sagði Sandra og bætti við að stjórnvöld hefðu ekki kynnt nein áform um hvernig brugðist verði við hugsanlegum neikvæðum langtímaáhrifum faraldursins á heilsu framlínustarfsfólks.

Sandra sagði að fernt þyrfti að gera til að bregðast við. Í fyrsta lagi þyrfti að tryggja að framlínustarfsfólk sem staðið hefði vaktina í meira en ár fengi hvíld. Í öðru lagi þyrfti að rannsaka langtímaáhrif faraldursins á þennan hóp. Í þriðja lagi þyrfti fólk að geta leitað sér aðstoðar vegna slíkra langtímaáhrifa og í fjórða lagi væri nauðsynlegt að tryggja að framlínustarfsfólk fengi sanngjarna umbun fyrir ófyrirséð og fordæmalaust álag í starfi.

Vissi strax að ég vildi nota einmitt þessa mynd

Donata Honkowicz-Bukowska, grunnskólakennari og kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með íslensku sem annað mál, fjallað í sínu erindi um upplifun sína af ástandinu sem skapast hefur í faraldrinum. Hún byrjaði á því að varpa upp myndinni sem sjá má hér að ofan til hægri: „Þegar ég var beðin um að segja nokkur orð um upplifun mína á mínu vinnuumhverfi á tímum farsóttar vissi ég strax að mig langaði að nota einmitt þessa mynd. Hún lýsir ágætlega hugarástandi mínu á tímum heimsfaraldurs þegar breyttur raunveruleiki í vinnu og á heimilinu skall á mér af fullum þunga,“ sagði Donata.

Hún ræddi meðal annars hvað hún hefði lært í faraldrinum: „Persónlega lærði ég að biðja oftar um aðstoð og ekki vera hrædd við að fækka stundum verkefnum sem ég tek að mér. Ég lærði einnig að þó svo að verkaskipting á mínu heimili á milli mín og mannsins míns væri í betri kantinum, þá væri ég ekki alveg laus við hlutverk sem mér var troðið í og haldið í sem konu,“ sagði Donata.


Fréttir