Aldrei fleiri háskólamenntaðir skráðir atvinnulausir

Yfir fjögurþúsund án vinnu auk þeirra sem eru á hlutabótum

20.5.2020

Skráð atvinnuleysi meðal fólks með háskólamenntun hefur aldrei verið meira en nú. Alls 3.468 í mars og 4.064 í apríl 2020. Á sama tíma í fyrra voru 1.724 háskólamenntuð í atvinnuleit. Vert er að athuga að háskólamenntaðir á hlutabótum er ekki inni í þessum tölum. Fyrra met í atvinnuleysi háskólamenntaðra er frá því í júlí 2009 en þá voru tæplega 2.500 háskólamenntaðir án atvinnu.

Innan aðildarfélaga BHM voru 672 skráðir á atvinnuleysisskrá í mars. Af þeim voru 213 á almennum bótum - 75 karlar og 138 konur - en 459 á hlutabótum, 164 karlar og 295 konur. Fyrir aprílmánuð stendur tala atvinnulausra innan BHM í 629, að félagsmönnum á hlutabótum meðtöldum. Gert er ráð fyrir að sú tala hækki þegar endanlegar tölur fyrir aprílmánuð berast, þann 26. maí næstkomandi. Til samanburðar voru tölurnar yfir atvinnulausa innan BHM 111 í marsmánuði 2019 og 122 í apríl 2019.

Atvinnuleysi meðal háskólafólks hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin tvö ár en um mitt ár 2018 voru um 1.200 háskólamenntuð skráð án atvinnu. BHM hefur ítrekað lýst áhyggjum af þróuninni undanfarin ár þar sem fjöldi háskólamenntaðra án atvinnu hefur farið vaxandi. Sjá nánar um þróunina í þessari frétt.