Alþingi samþykkir lög um Menntasjóð námsmanna

9.6.2020

  • mynd-med-malthingi_forsida

Alþingi samþykkti í dag lög um Menntasjóð námsmanna sem leysa munu af hólmi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með samþykkt laganna verða miklar breytingar á fjárhagslegum stuðningi ríkisins við námsmenn. Tekið er upp blandað kerfi lána og styrkja en styrkirnir munu einkum felast í því að veittur verður 30% afsláttur af höfuðstól láns ef námsmaður lýkur námi innan ákveðinna tímamarka.

Lögin eru í öllum meginatriðum samhljóða frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra sem lagt var fram á Alþingi í lok síðasta árs. Í umsögn BHM um frumvarpið var áformum um blandað kerfi lána og styrkja fagnað en um leið bent á ýmis atriði í frumvarpinu sem betur mættu fara að mati bandalagsins. Meðal annars taldi BHM að veita ætti ríflegri afslátt af höfuðstól láns þegar námsmaður uppfyllir skilyrði þess, stuðningur við barnafólk þyrfti að vera meiri og setja ætti þak á vexti námslána, svo dæmi séu nefnd.

Aðgerðir í þágu núverandi greiðenda námslána bundnar í lög

Í bráðabirgðaákvæðum er kveðið á um ýmsar aðgerðir til að koma til móts við núverandi greiðendur námslána. Þessar aðgerðir eru að mestu í samræmi við tillögur starfshóps forsætisráðherra sem skilaði áliti á síðasta ári og BHM átti fulltrúa í. Meðal annars verða vextir lána og endurgreiðsluhlutfall lækkað og eldri ábyrgðir felldar niður. BHM hefur áður fagnað þessum aðgerðum í sérstakri yfirlýsingu.