Ályktanir aðalfundar BHM 2018

8.5.2018

  • IMG_0272
  • IMG_0167
  • IMG_0172
  • IMG_0157
  • IMG_0165
  • IMG_0238
  • IMG_0249
  • IMG_0198
  • IMG_0205
  • IMG_0253

Á aðalfundi Bandalags háskólamanna (BHM), sem haldinn var í dag, 8. maí 2018, voru samþykktar eftirfarandi ályktanir.

Afnema ber hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta

Aðalfundur BHM 2018 vekur athygli á viðvarandi langtímaatvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks. Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun voru 1.118 háskólamenntaðir á atvinnuleysisskrá í mars síðastliðnum, þar af höfðu 469 eða 42% verið lengur en 6 mánuði án vinnu. Langtímaatvinnuleysi getur haft neikvæð áhrif á fjárhag, líðan og heilsu þeirra sem fyrir því verða. BHM telur mikilvægt að stjórnvöld greini framtíðarþarfir vinnumarkaðarins og áhrif tækniframfara á hann. Jafnframt er mikilvægt að efla samstarf menntasamfélagsins við atvinnulífið með það fyrir augum að styðja við nýsköpun. BHM lýsir sig reiðubúið til að taka þátt í samstarfi við Vinnumálastofnun um aðgerðir til að aðstoða háskólafólk í atvinnuleit.

Aðalfundur BHM 2018 ályktar að afnema beri hámark tengjutengdra atvinnuleysisbóta, sem greiddar eru fyrstu þrjá mánuði atvinnuleysis, og hækka grunnatvinnuleysisbætur þannig að þær dugi til framfærslu.

Tjón launþega við gjaldþrot fyrirtækja verði að fullu bætt

Aðalfundur BHM 2018 ályktar að hækka beri hámarksbætur sem Ábyrgðarsjóður launa greiðir vegna vangoldinna launa við gjaldþrot fyrirtækja. Hámarksbætur sem sjóðurinn greiðir eru nú 385 þúsund krónur fyrir hvern mánuð en BHM telur sanngjarnt að sjóðurinn greiði að fullu það tjón sem launþegi verður fyrir við gjaldþrot fyrirtækis sem hann hefur starfað hjá.

Hækka ber hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi

Aðalfundur BHM 2018 áréttar þá kröfu bandalagsins að lög um fæðingarorlof verði tekin til endurskoðunar, meðal annars reglur um fjárhæð greiðslna og tímalengd orlofs. Núgildandi reglur um hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi koma í veg fyrir að markmið laganna náist. Hækka þarf hámarksgreiðslur svo tryggt sé að allir foreldrar eigi þess kost að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. BHM styður að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12. Að öðru leyti vísar BHM í skýrslu starfshóps félags- og húsnæðismálaráðherra um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum frá árinu 2016.

Tryggja þarf húsnæðisöryggi ungs háskólafólks

Aðalfundur BHM 2018 lýsir áhyggjum af húsnæðismálum ungs fólks. Viðvarandi húsnæðisskortur hefur þrýst upp húsnæðisverði hér á landi. Þetta á bæði við um kaupverð húsnæðis og leiguverð. Þannig hækkaði vísitala íbúðaverðs um 69% frá ársbyrjun 2013 til ársbyrjunar 2018 og vísitala leiguverðs um 50%. Á sama tíma hækkaði launavísitala um 45% og lán LÍN til grunnframfærslu um 28%. Af þessu leiðir að sífellt erfiðara er fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið. Þessi þróun hefur orðið á sama tíma og atvinnuhorfur nýútskrifaðs háskólafólks hafa versnað. BHM skorar á stjórnvöld að leita leiða til að tryggja að ungt fólk hafi aðgengi að húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Húsnæðisöryggi er forsenda þess að Ísland geti keppt við nágrannalöndin um menntað vinnuafl.

Bætt kjör starfsfólks heilbrigðisstofnana

Aðalfundur BHM 2018 skorar á ríkisstjórn Íslands að efna fyrirheit sem gefin voru í yfirlýsingu þriggja ráðherra frá 12. febrúar 2018 í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BHM við ríkið. Þar er meðal annars kveðið á um að mótuð verði stefna og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir með það að markmiði að heilbrigðisstarfsfólk búi við samkeppnishæf kjör. Mjög brýnt er að ráðist verði í þær aðgerðir sem þar eru boðaðar. Þar að auki telur BHM brýnt að kjarabætur nái til alls starfsfólks heilbrigðisstofnana.

Einnig er ástæða til að hafa þungar áhyggjur af lítilli nýliðun meðal sumra stétta háskólamenntaðra heilbrigðisstarfsmanna. Til dæmis má geta þess að á næstu árum mun fjöldi lífeindafræðinga og ljósmæðra fara á eftirlaun og óljóst er hvort takast muni að fylla skörðin. Ef fram heldur sem horfir blasir við alvarlegur skortur á háskólamenntuðum sérfræðingum innan heilbrigðisþjónustunnar innan fárra ára. Við þessum vanda þarf að bregðast án tafar.

BHM fái fulltrúa í verkefnastjórn um endurskoðun laga um LÍN

Aðalfundur BHM 2018 skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að skipa fulltrúa BHM í verkefnastjórn sem falið hefur verið að endurskoða lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Félagsmenn aðildarfélaga BHM eiga mikilla hagsmuna að gæta við endurskoðun á lögunum, ekki síst með tilliti til lánakjara og endurgreiðslubyrði námslána. Því er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að BHM taki beinan þátt í þessari vinnu. Jafnframt áréttar fundurinn kröfu bandalagsins um að fá sæti í stjórn LÍN sem fulltrúi greiðenda. 

Jöfnun launa milli vinnumarkaða

Aðalfundur BHM 2018 skorar á stjórnvöld að efna fyrirheit um jöfnun launa milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins sem gefið var í samkomulagi um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna haustið 2016. Fyrir liggur skýrsla samráðshóps sem falið var að meta hvaða tölfræðigögn og aðferðir þurfi að liggja til grundvallar við jöfnun launa milli markaða. Brýnt er að halda áfram þessari vinnu, meðal annars á grundvelli tillagna samráðshópsins, og ljúka henni fyrir árslok þannig að hægt verði að taka skref í átt til jöfnunar launa milli vinnumarkaða í næstu kjarasamningum stéttarfélaga opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög.

Aðalfundur lýsir yfir stuðningi við LMFÍ

Aðalfundur BHM haldinn á Icelandair hótel Reykjavík Natura 8. maí 2018 lýsir yfir stuðningi við Ljósmæðrafélag Íslands í viðræðum félagsins við samninganefnd ríkisins.

Stjórnvöld leysi dagvistunarvandann

Aðalfundur BHM 2018 biðlar til stjórnvalda að leysa þann dagvistunarvanda sem foreldrar/forráðamenn ungra barna standa frammi fyrir eftir að fæðingarorlofi lýkur.