Líflegar umræður á málþingi um nýtt samningalíkan

14.11.2016

  • IMG_7685a
  • IMG_7643a
  • IMG_7608a
  • IMG_7665a
  • IMG_7620a
  • IMG_7568a
  • IMG_7673a

Fjölmenni var á málþingi BHM, Þjónustuskrifstofu FFSS og Norræna hússins um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi sem haldið var sl. föstudag. Yfirskrift málþingsins var Lykill eða lás? Möguleikar háskólafólks í nýju samningalíkani á íslenskum vinnumarkaði. Um nokkurt skeið hafa aðilar vinnumarkaðarins unnið að breytingum á skipulagi kjarasamningagerðar á vettvangi samstarfstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (salek), en sem kunnugt er hefur nú verið gert hlé á þessari vinnu. Markmið málþingsins var að ræða mögulegar breytingar og áhrif þeirra á stöðu og hagsmuni háskólamenntaðs fólks. Málþingið fór fram á Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg. Fundarstjóri var Magnús Pétursson, fyrrverandi ríkissáttasemjari og forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Yfir eitthundrað fulltrúar frá aðildarfélögum BHM, öðrum heildarsamtökum á vinnumarkaði, ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum tengdum vinnumarkaði og stjórnmálaflokkum sátu málþingið sem var tvískipt. Í fyrri hluta fjölluðu þrír erlendir fyrirlesarar um þróun vinnumarkaða í Norður-Evrópu og vinnubrögð við kjarasamningagerð í Noregi og Danmörku. Christian Lyhne Ibsen, aðstoðarprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, reið á vaðið og flutti erindi um strauma og stefnur á norrænum vinnumörkuðum um þessar mundir. Því næst flutti Kari Sollien, formaður bandalags háskólamanna í Noregi (Akademikerne Norge), erindi um kjarasamningagerð þar í landi frá sjónarhóli háskólamanna og loks fjallaði Lars Qvistgaard, formaður bandalags háskólamanna í Danmörku (AC), um styrkleika og veikleika danska samningalíkansins.

Í seinni hluta málþingsins var sjónum beint að aðstæðum hér á landi. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari fór yfir Salek-ferlið og þær áskoranir sem við blasa í þeirri vinnu. Þá flutti Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, erindi um þau áhrif sem framfarir í vísindum og tækni munu hafa á störf háskólamenntaðra í framtíðinni, á vinnumarkaðinn og samfélagið almennt. Að lokum fjallaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, um stöðu Salek-ferlisins og það sem bandalagið telur að gera þurfi til að unnt verði að leiða það til farsælla lykta.

Á eftir hverju erindi var opnað fyrir spurningar til fyrirlesara úr salnum og spunnust á köflum líflegar umræður. Þess má geta að málþingið var tekið upp (hljóð og mynd) og verður upptakan gerð aðgengileg hér á vefnum innan tíðar.

Glærur frá málþinginu má nálgast hér:

Christian Lyhne Ibsen

Kari Sollien

Lars Qvistgaard

Bryndís Hlöðversdóttir

Ari Kristinn Jónsson

Þórunn Sveinbjarnardóttir


Fréttir