Nýlegur dómur Félagsdóms hefur fordæmisgildi fyrir trúnaðarmenn aðildarfélaga BHM sem vinna vaktavinnu

10.8.2018

Nýlega komst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að starfsmaður Akureyrarbæjar og trúnaðarmaður stéttarfélags ætti rétt á launum án vinnuframlags fyrir kvöldvaktir sem hann átti að vinna á dögum þegar hann sótti námskeið fyrir trúnaðarmenn. Í málinu reyndi á ákvæði um trúnaðarmenn í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga en sambærileg ákvæði eru í kjarasamningum aðildarfélaga BHM á opinberum vinnumarkaði. Því er óhætt að ganga út frá því að sömu sjónarmið og reyndi á í málinu eigi við um trúnaðarmenn aðildarfélaga BHM sem vinna vaktavinnu.  

Dómur Félagsdóms var kveðinn upp 4. júlí sl. Samkvæmt kjarasamningum eiga trúnaðarmenn rétt á launum án vinnuframlags þegar þeir sækja trúnaðarmannanámskeið sem viðurkennd eru af samningsaðilum. Trúnaðarmaður Einingar-Iðju á Akureyri og starfsmaður stofnunar Akureyrarbæjar sótti trúnaðarmannanámskeið þrjá daga í febrúar 2017. Tvo þessara daga var trúnaðarmaðurinn skráður á kvöldvakt á vinnustað sínum en þriðja daginn á dagvakt. Við framlagningu vaktskrár fyrir febrúar tilkynnti viðkomandi trúnaðarmaður yfirmanni sínum að hún yrði á umræddu námskeiði þessa þrjá daga í febrúar á milli kl. 9–16. Var henni þá boðið að vera í launalausu leyfi fyrstu tvo dagana og mæta ekki til vinnu að loknu námskeiði. Var trúnaðarmaðurinn skráður í launalaust leyfi fyrri tvo dagana þar eð hún mætti ekki til vinnu að loknu námskeiði. Voru þessir tveir dagar því dregnir frá mánaðarlaunum hennar um næstu mánaðarmót. Innheimtutilraunir lögmanns stéttarfélagsins báru ekki árangur og var mál þetta því höfðað.  

Niðurstaða Félagsdóms var að það væri íþyngjandi og til þess fallið að gera trúnaðarmanni ókleift að sækja slík námskeið ef hann þyrfti jafnframt að vinna kvöldvaktir sama dag eða að öðrum kosti sæta launaskerðingu. Trúnaðarmaðurinn átti því rétt á launum án vinnuframlags vegna fyrirframákveðinna kvöldvakta sömu daga og námskeiðið fór fram.  Ágreiningslaust er í málinu að viðkomandi starfsmaður var trúnaðarmaður og sótti viðurkennt trúnaðarmannanámskeið. Kjarni ágreinings aðila er hvaða skilning ber að leggja í grein 14.2.9.1 í kjarasamningi aðila sem fjallar um trúnaðarmannanámskeið. Þar segir:  

Trúnaðarmönnum á vinnustað skal gefinn kostur á að sækja námskeið sem miða að því að gera þá hæfari í starfi. Hver trúnaðarmaður hefur rétt á að sækja námskeið. Þeir sem námskeiðin sækja skulu halda reglubundnum launum í allt að fimm vinnudaga á ári enda séu námskeiðin viðurkennd af samningsaðilum. […]“

Trúnaðarmaðurinn taldi sig hafa uppfyllt vinnuskyldu sína með setu á námskeiði en Akureyrarbær taldi svo ekki vera heldur hefði henni borið að mæta til vinnu að námskeiði loknu enda hefði námskeiðið farið fram utan hennar vinnutíma þessa tvo daga.  Félagsdómur taldi að orðalag greinar 14.2.9.1 gæfi ekki ástæðu til annarrar ályktunar en að námskeið verði að vera haldið sama dag og starfsmaður átti að vera við vinnu en ekki endilega á sama tíma. Í þessu samhengi yrði að horfa til þess að „sú ráðstöfun, að ætlast til þess að hún ynni kvöldvaktirnar eftir að námskeiðinu lauk umrædda daga, en sæta ella launaskerðingu, var íþyngjandi og hamlaði því í reynd að henni væri unnt að sækja námskeiðið sem hún átti kjarasamningsbundinn rétt á að sækja sem trúnaðarmaður á vinnustaðnum.“

Ákvæðið í umræddum kjarasamningi er efnislega sambærilegt ákvæðum um trúnaðarmenn í kjarasamningum BHM félaga á opinberum vinnumarkaði en ekki orðrétt það sama. Óhætt er að ganga út frá því að sömu sjónarmið og reyndi á í málinu eigi við um félagsmenn aðildarfélaga BHM sem vinna vaktavinnu.  

Dómur Félagsdóms í heild sinni