Athugasemdir BHM við frumvarp til laga um viðspyrnustyrki

9.12.2020

  • thingsalur

Á haustmánuðum átti BHM frumkvæði að aðgerðum stjórnvalda í þágu listamanna sem orðið hafa fyrir tekjumissi vegna kórónuveirufaraldursins. Í byrjun nóvember samþykkti Alþingi lög um tekjufallsstyrki sem eiga að styðja við einyrkja og fyrirtæki sem urðu fyrir tekjufalli á tímabilinu frá síðastliðnu vori og fram í nóvember. Lögum um tekjufallsstyrki var síðan fylgt eftir með frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um svokallaða viðspyrnustyrki sem ætlað er að styðja við rekstur fyrirtækja fram á mitt ár 2021.

Í umsögn BHM um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki er efnahagslegum aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins fagnað. Hins vegar er bent á nokkur atriði í frumvarpinu sem færa þurfi til betri vegar í ljósi versnandi skuldastöðu ríkissjóðs og aukinna byrða framtíðarskattgreiðenda vegna hennar:

  • BHM telur að einungis eigi að bæta tekjufall sem sannanlega er til komið vegna áhrifa kórónukreppunnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstraraðilar geti m.a. talið fram fjármagnstekjur og vexti þegar sótt er um viðspyrnustyrk. Ekki er hægt að rökstyðja að slíkar tekjur verði fyrir áhrifum af kreppunni.
  • Að mati BHM eru ekki sett nægilega ströng skilyrði um fjárhag og rekstrarhæfi fyrirtækja sem hljóta styrk: „BHM telur álitamál hvort fyrirtæki í miklum rekstrarvanda og þau sem síst þykja lífvænleg skuli vera styrkbær.“
  • Í umsögninni er þeirri spurningu velt upp hvort stjórnvöld eigi yfirleitt að bæta tekjufall í atvinnugreinum með „litlar aðgangshindranir“, þ.e. þar sem kostnaður af því að hefja starfsemi á markaði er lágur: „Ráðstöfun skattfjár til stuðningsaðgerða gagnvart þeim atvinnugreinum hafa mikinn fórnarkostnað í för með sér fyrir skattgreiðendur og takmarkaðan langtímaábata.“
  • Loks bendir BHM á að kórónuveirufaraldurinn kalli á umbætur á atvinnuleysistryggingakerfinu til lengri tíma.

Umsögnin í heild sinni.


Fréttir