Atvinnuleysi meðal háskólafólks heldur áfram að aukast

BHM hefur ítrekað lýst áhyggjum af þróuninni

4.10.2019

Í ágúst sl. voru samtals 1.904 háskólamenntaðir einstaklingar skráðir án atvinnu, 1.108 konur og 796 karlar, samkvæmt nýjum tölum frá Vinnumálastofnun. Á sama tíma í fyrra voru samtals 1.144 háskólamenntaðir skráðir án atvinnu og hefur þeim því fjölgað um 760 milli ára eða um tæplega 66%. Í janúar á þessu ári voru samtals 1.447 háskólamenntaðir skráðir án atvinnu og hefur þeim því fjölgað um 457 á árinu eða um tæplega þriðjung. Háskólamenntaðir voru rúmlega fjórðungur (27%) af heildarfjölda atvinnulausra í ágúst og er það lítið eitt hærra hlutfall en fyrir ári síðan. 

Í ljósi mikils fjölda uppsagna í nýliðnum mánuði á stórum vinnustöðum, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, má fastlega reikna með því að háskólamenntuðu fólki á atvinnuleysisskrá hafi fjölgað enn meira en tölurnar hér að ofan (fyrir ágúst) gefa til kynna. Þá hefur verið bent á að atvinnuleysi meðal þessa hóps sé í raun meira en mælingar sýna því margt háskólamenntað fólk sé í störfum sem ekki krefjast háskólamenntunar (dulið atvinnuleysi).

„Við í Bandalagi háskólamanna höfum lengi haft áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi háskólafólks og höfum reglulega bent á að það þarf að bregðast við þróuninni með markvissum aðgerðum,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. „Fjöldi uppsagna að undanförnu bendir til þess að það séu hræringar á vinnumarkaði. Þær stafa m.a. af kerfisbreytingum sem eru að verða í vissum atvinnugreinum, t.a.m. í fjármálageiranum. Vandinn er sá að atvinnulífið er ekki nógu fjölbreytt. Okkur vantar meiri nýsköpun og uppbyggingu í atvinnugreinum sem byggja á þekkingu og hugviti. Þar hafa stjórnvöld mikilvægu hlutverki að gegna.“

Tafla – Fjöldi atvinnulausra eftir menntunarflokkum

(Heimild: Vinnumálastofnun)

TAFLA-ATVINNULEYSI-AGUST-2019

Kynningarátak skilaði árangri

Í vor efndu BHM og Vinnumálastofnun til sameiginlegs átaks til að kynna forráðamönnum fyrirtækja og stofnana þann stuðning sem þeim býðst ef þau ráða háskólamenntað fólk til starfa, t.d. vegna sumarafleysinga eða tímabundinna verkefna. Hér er einkum um að ræða svokallaða starfsþjálfunarstyrki sem Vinnumálastofnun greiðir í allt að 6 mánuði með hverjum atvinnuleitanda sem fær starf. Sameiginlega kynningarátakið beindist að forráðamönnum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Á tímabilinu mars til júlí fengu samtals 60 háskólamenntaðir störf gegnum Vinnumálastofnun og samtals var gerður 31 samningur um starfsþjálfunarstyrki vegna þeirra. Að mati BHM og Vinnumálstofnunar telst þetta ágætur árangur miðað við aðstæður.


Fréttir