Auglýst eftir framboðum til formanns Fræðagarðs

Um að ræða fullt starf til næstu fjögurra ára

5.3.2018

  • frg

Auglýst hefur verið eftir framboðum til formanns Fræðagarðs í samræmi við breytingar á lögum félagsins sem samþykktar voru á nýafstöðnum aðalfundi þess. Samkvæmt lögunum skulu félagsmenn kjósa formann í rafrænni kosningu til fjögurra ára í senn en hingað til hefur formaður verið kjörinn á aðalfundi til tveggja ára. Jafnframt er nú gert ráð fyrir að embætti formanns sé fullt starf. Framboðsfrestur rennur út á miðnætti 15. mars nk. Rafræn kosning hefst daginn eftir, 16. mars kl. 13:00 og stendur til 23. mars kl. 13:00.

Í bréfi sem kjörnefnd Fræðagarðs hefur sent félagsmönnum kemur fram að þeir sem vilji gefa kost á sér í embætti formanns skuli senda tilkynningu þar um á netfangið fraedagardur@fraedagardur.is. Með tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn, aldur, háskólamenntun og starfsvettvang viðkomandi. Jafnframt skal hann eða hún tilgreina ástæður fyrir framboði. Þá segir í bréfinu að þessar upplýsingar verði sendar félagsmönnum ásamt kynningu á framkvæmd rafrænnar kosningar.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar verða kynnt á framhaldsaðalfundi Fræðagarðs sem haldinn verður 23. mars kl. 16:00.