Aukaaðalfundur BHM lýsir þungum áhyggjum af stöðu kjaraviðræðna

1.11.2017

  • IMG_6437

Á aukaaðalfundi BHM, sem haldinn var í dag, 1. nóvember 2017, var samþykkt ályktun þar sem lýst er þungum áhyggjum af stöðu kjaraviðræðna 17 aðildarfélaga bandalagsins við ríkið og þess krafist að gengið verði tafarlaust til samninga. 

Boðað var til aukaaðalfundar til að ræða og afgreiða tillögur að nýrri stefnu bandalagsins. Fundurinn samþykkti nýja stefnu og leysir hún af hólmi eldri stefnu sem gilt hefur frá árinu 2013. Nýja stefnan verður birt hér á vefnum innan skamms.

Ályktun aukaaðalfundar BHM 2017 í heild sinni:

„Samið verði tafarlaust við aðildarfélög BHM

Aukaaðalfundur BHM lýsir þungum áhyggjum af stöðu kjaraviðræðna 17 aðildarfélaga við ríkið og krefst þess að gengið verði tafarlaust til samninga. Af hálfu BHM er skýrt að samningur tekur við af samningi, þ.e.a.s. upphaf gildistíma nýrra kjarasamninga verði frá 1. september 2017. Fyrir afturvirkni eru fjölmörg fordæmi, t.d. kjarasamningur Samninganefndar ríkisins við Læknafélag Íslands. Þá má nefna afturvirkni úrskurða Kjararáðs.

Menntun skal metin til launa!“