Ýmsar leiðir til að greiða fyrir endurkomu fólks til vinnu í kjölfar áfalla

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarjóðs, ræddi orsakir aukinnar örorkutíðni hér á landi og möguleg viðbrögð við þeirri þróun á fundi með fulltrúum BHM og aðildarfélaga í vikunni

8.6.2017

  • graf
  • vigdis
  • DSCN2009

Á síðustu árum og áratugum hefur örorkulífeyrisþegum fjölgað verulega hér á landi. Árið 1986 voru þeir um 2,3% af mannafla á aldrinum 18 til 64 ára en árið 2015 var þetta hlutfall komið upp í um 8,5%. Svipuð þróun hefur orðið í nágrannalöndunum en útgjöld hins opinbera vegna örorku eru þó hlutfallslega hærri og öryrkjar hlutfallslega fleiri hér á landi en annars staðar.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, fjallaði um orsakir þessarar þróunar á fundi með fulltrúum BHM og aðildarfélaga sl. miðvikudag. Í máli hennar kom fram að þróunin á sér margvíslegar rætur. Meðal annars megi rekja hana til breyttra viðhorfa til geðsjúkdóma, fjölgunar sjúkdómsgreininga, afleiðinga lífsstíls, erfiðra félagslegra aðstæðna og fleiri þátta. 

Huga þarf að breytingum á rétti til launa í veikindum

Þá fjallaði Vigdís um leiðir til að bregðast við þessari þróun og koma í veg fyrir að fólk detti út af vinnumarkaði vegna sjúkdóma eða annars konar áfalla. Hún sagði að ýmsar leiðir væru til að auðvelda fólki að fóta sig á vinnumarkaði í kjölfar áfalla. Mikilvægt væri að bótakerfin hvettu til atvinnuþátttöku og að starfsgetumat yrði innleitt í ríkari mæli í stað örorkumats. Aðskilja ætti framfærslu og annan stuðning við einstaklinga með heilsubrest. Einnig þyrfti að auka sveigjanleika í bótakerfinu, bæta samræmi milli mismunandi stuðningskerfa og vinna markvisst að viðhorfsbreytingu í samfélaginu um tengsl heilsubrests og vinnu. Enn fremur þyrfti að huga að breytingum á samningsbundnum rétti fólks til launa í veikindum til að greiða fyrir endurkomu fólks til vinnu. Þannig mætti t.d. hugsa sér að í stað þess að atvinnurekendur greiði laun starfsmanna í veikindum, eins og nú er, myndi sérstakur áfallatryggingasjóður fjármagna laun vegna veikinda. Loks þyrfti að bæta aðgengi fólks að heilbrigðis- og félagsþjónustu, auka áherslu á heilsueflingu og forvarnir og efla samstarf milli heilbrigðiskerfisins, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og aðila vinnumarkaðarins.

Lesa má nánar um orsakir og afleiðingar aukinnar örorkutíðni hér á landi í mjög áhugaverðri grein Vigdísar sem birtist í Ársriti um starfsendurhæfingu 2017 sem gefið er út af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.