Bandalagið á að sýna meira frumkvæði í opinberri umræðu

Ávarp Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, á aðalfundi bandalagsins 19. maí 2016

21.5.2016

  • Thorunn-Sveinbjarnardottir-(9113)
    Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM

Fundarstýra, góðir aðalfundarfulltrúar og aðrir gestir,

Það er með ánægju sem ég býð ykkur velkomin til aðalfundar Bandalags háskólamanna. Í dag eru réttir 13 mánuðir frá síðasta fundi, sem, eins og við öll munum, var haldinn í miðjum verkfallsaðgerðum 18 aðildarfélaga BHM í kjaradeilu við ríkið. Aðgerðirnar eru öllum vafalítið í fersku minni  og ekki þörf á að rekja þær hér. En mér er einnig í fersku minni baráttuþrekið og samstaðan sem einkenndi þessar 10 vikur.

Krafan um að menntuni skuli metin til launa var sett og oddinn og óhætt er að segja að hún hafi hljómað um allt samfélagið og geri það enn. BHM tókst að koma baráttumálum sínum rækilega á dagskrá. Sýnileiki bandalagsins í fjölmiðlum hefur aldrei verið eins mikill og árið 2015. Það segir okkur einfaldlega að þegar kröfum er komið á framfæri á skýran hátt og með mismunandi aðferðum verður kjarabaráttan þeim mun öflugri.

Mikill tími, orka og fé fór í að reka dómsmál á liðnu starfsári; fyrir félagsdómi, héraðs- og hæstarétti. Þegar hæstiréttur Íslands dæmdi ríkinu í vil vegna laganna sem sett voru á verkfallsaðgerðir aðildarfélaganna var fljótlega ákveðið að taka málið alla leið og kæra íslenska ríkið til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Vonandi verður þess ekki lengi að bíða að tilkynnt verði um hvort málið verði tekið fyrir.

Í vetur sömdu aðildarfélög við Reykjavíkurborg og síðan við launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Segja má, að nú sé lokið tæplega þriggja ára langri samningalotu og ekki nema von að mörgum finnist að nóg sé komið – í bili, a.m.k.

Eitt stórt verkefni er þó eftir og það er að gera kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Tala félagsmanna í BHM sem starfa hjá fyrirtækjum í SA nálgast nú 2.000 og alveg ljóst að við erum ekki lengur að tala um einhverja afgangsstærð í réttindabaráttu háskólamanna.

Eins og aðalfundarfulltrúar sjá í framlagðri starfsáætlun fyrir 2016 til 2017 þá bíða mörg mikilvæg verkefni bandalagsins og aðildarfélaga þess.

Það er von mín að á nýju starfsári gefist BHM og aðildarfélögum þess svigrúm til að huga vel að innra starfi, stefnumótun og góðum undirbúningi næstu samningalotu. Huga þarf betur að því hvers konar þjónustu aðildarfélögin vilja fá frá skrifstofu bandalagsins og aðlaga hana betur að kröfum og þörfum félagsmanna. Þá tel ég brýnt að stjórn og formannaráð BHM rýni með hvaða hætti sé best að beita samtakamætti bandalagsins í hagsmunagæslu og opinberri umræðu. Heildarsamtök háskólamanna eru málsvari mikilvægra sjónarmiða á vinnumarkaði og eiga að hafa sterka rödd í opinberri umræðu og málsvörn fyrir hagsmuni félagsmanna.

Bandalag háskólamanna á að sýna meira frumkvæði í opinberri umræðu um málefni sem varða hagsmuni þess og félagsmannanna. Þegar við höfum tekið slíkt frumkvæði hefur það undantekningalaust vakið athygli á brýnum málefnum og stuðlað að upplýstri umfjöllun um þau. Eitt dæmi frá síðasta ári er ráðstefnan um myglusvepp : ógn við heilsu starfsfólks. Hún vakti umtal og athygli og margir urðu til að þakka bandalaginu frumkvæðið.

Það sama má segja um hagsmunagæslu BHM vegna auglýsinga um starfsnám og/eða sjálfboðin störf. Þar hefur bandalagið sinnt brýnu hagsmunamáli háskólastúdenta og nýbrautskráðra þannig að eftir hefur verið tekið.

Og þá er vert að nefna samstarfssamning sem formenn BHM og  Landsamtaka íslenskra stúdenta undirituðu í mars á þessu ári. LÍS hefur fengið skrifstofuaðstöðu á 3. hæðinni hér í Borgartúni. Við væntum mikils af þessu samstarfi sem er nú þegar farið að gefa góða raun. Fundurinn sem haldinn var í þessum sal fyrir hádegi er ávöxtur þessa samstarfs.  Þar var rætt um lífið eftir háskólanám – kjör ungs fólks og aðstæður á vinnumarkaði.

BHM á ekki að láta staðar numið hér í umfjöllun um mál sem eru og verða efst á baugi, t.d. stöðu kvenna á vinnumarkaði, m.a. falið atvinnuleysi (langtíma) og launamun kynjanna; um nauðsyn þess að endurskoða starfsmannalögin og stofnanasamningakerfið; og um stöðu háskólafólks á norrænum vinnumarkaði (innan norræna módelsins). Og þannig mætti áfram telja.

Kjaradeilur og kjarasamningagerð bar hæst í starfi bandalagsins á liðnu starfsári. En þar utan hafa tvö verkefni sett mestan svip á árið. Fyrst er að nefna viðræður við ríki og sveitarfélög um jöfnun lífeyrisréttinda á milli opinbers og almenns vinnumarkaðar. Algjör samstaða hefur ríkt á milli BHM, BSRB og KÍ um að ekki megi skerða áunnin réttindi opinberra starfsmanna eins og þau hafa verið skilgreind í lögum. Lítið þokaðist í viðræðunum þar til í vor en ætla má að niðurstaða um útfærslu sem samstaða gæti ríkt um geti náðst í sumar. Hitt stóra verkefnið er á vettvangi Samstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagslegar forsendur kjarasamninga (SALEK). Þar er markmiðið er að bæta vinnubrögð og umgjörð kjarasamningagerðar hér á landi að norrænni fyrirmynd. Óhætt er að fullyrða að hin íslenska kjarasamningahefð sé úr sér gengin og gamaldags. Henni má sannarlega breyta. Slíkar breytingar verða þó aldrei farsælar nema að um þær sé samstaða og markmið þeirra séu skýr og öllum ljós. Ég er þeirrar skoðunar að BHM eigi ekki að óttast slíkar breytingar heldur beita sér af fullum þunga á vettvangi SALEK fyrir hagsmunum félagsmanna sinna og samfélagsins alls.

Að lokum langar mig að þakka forystufólki aðildarfélaga BHM og félagsmönnum fyrir ánægjulegt samstarf á fyrsta ári mínu í formannssæti. Þetta hefur verið einstaklega lærdómsríkur, skemmtilegur og annasamur tími. Ég er þess fullviss að Bandalag háskólamanna muni eflast og stækka á komandi starfsári. Öllum til heilla.

 


Fréttir