Bann við mismunun á vinnumarkaði tók gildi um áramótin

3.4.2019

Þann 1. janúar síðastliðinn tóku gildi á Íslandi lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018. Markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þáttum eins og þjóðernisuppruna, kynþætti, trú, aldri, lífsskoðun, fötlun, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum o.fl. Í lögunum er lagt bann við ýmiss konar mismunun á grundvelli fyrrgreindra þátta, m.a. bann við mismunun í starfi og við ráðningu og bann við mismunun í tengslum við laun og önnur kjör. Þá er vinnuveitendum skylt að gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi og fá þjálfun, séu þessar ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekanda.

Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildi þann 1. janúar sl. var ákveðið að bann við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs öðlist ekki gildi fyrr en 1. júlí 2019. Ástæðan er m.a. sú að í gildandi kjarasamningum er víða að finna ákvæði um réttindi tengd lífaldri einstaklings. Má þar nefna sem dæmi ákvæði ýmissa kjarasamninga um orlofsrétt, þ.e. starfsmaður sem hefur náð ákveðum aldri fær fleiri orlofsdaga en yngri starfsmaður óháð því hversu lengi viðkomandi hafa starfað hjá vinnuveitanda. Með frestun gildistöku þessa ákvæðis er aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum gefinn kostur á að bæta úr þessu í samningum og lögum áður en bannið tekur gildi.

Jafnréttisstofa annast framkvæmd laganna og kæru vegna brota á lögunum skal beina til kærunefndar jafnréttismála. 


Fréttir