Baráttudagskrá í sjónvarpinu 1. maí

Hefðbundnar kröfugöngur falla niður vegna samkomubanns

28.4.2020

  • Jakob Birgisson
    sjonvarp-1.-mai
    Jakob Birgisson, uppistandari

Vegna COVID-19 faraldursins getur íslenskt launafólk ekki safnast saman í hefðbundna kröfugöngu þann 1. maí eins og venjan er, en þetta er í fyrsta sinn síðan 1923 sem gangan fellur niður.

Bandalag háskólamanna, ASÍ, BSRB og KÍ hafa brugðist við þessu með því að efna til sérstakrar skemmti- og baráttudagskrár sem flutt verður í Hörpu og sjónvarpað að kvöldi 1. maí á RÚV kl. 19:40.

Boðið verður upp á dagskrá með landsþekktu tónlistarfólki, skemmtiatriðum og hvatningarorðum frá forystu verkalýðshreyfingarinnar. Meðal listamanna sem fram koma eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P. og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.

Þótt ekki verði kröfugöngur geta allir gert persónuleg kröfuspjöld með því að merkja prófílmynd sína á Facebook og þannig stutt baráttu verkalýðshreyfingarinnar þann 1. maí. Verður það kynnt nánar síðar.

BHM hvetur bæði félagsmenn sína og alla aðra til þáttöku í baráttudeginum á Facebook og til að horfa á dagskrána um kvöldið.