Fjölþættar aðgerðir kynntar í þágu listamanna

Formaður BHM vonast til að aðgerðirnar komi til móts við þarfir þessa hóps

16.10.2020

  • IMG_9415
    Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir; forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og hagfræðingur BHM, Vilhjálmur Hilmarsson, kynna aðgerðirnar í Hörpu í dag.

Tveir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ásamt hagfræðingi BHM kynntu í dag stuðningsaðgerðir fyrir listamenn sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna COVID-kreppunnar. Aðgerðirnar, sem eru að frumkvæði BHM, eru fjölþættar og miða að því að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja. Liður í þeim eru tekjufallsstyrkir sem einyrkjar og smærri rekstraraðilar munu geta sótt um en ráðgert er að slíkur stuðningur geti samtals numið rúmum 14 milljörðum króna.

Nýleg könnun BHM leiðir í ljós að margir listamenn hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli af völdum kórónuveirufaraldursins. Aðildarfélög BHM innan lista- og menningargeirans eru Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Félag íslenskra leikara (FÍL), Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ) og Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

„COVID-kreppan hefur bitnað illa á listafólki í öllum greinum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu vonandi koma til móts við þarfir þessa hóps sem hefur orðið fyrir miklu tekjufalli og býr við mikla óvissu á vinnumarkaði,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir; mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og hagfræðingur BHM, Vilhjálmur Hilmarsson, kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag en þær eru í meginatriðum þessar:

• Sjálfstætt starfandi listamenn og menningartengd fyrirtæki munu geta sótt um rekstrarstyrki til að mæta tekjusamdrætti vegna COVID-19. Ráðgert er að fjármunir sem varið verður til almenns tekjufallsstuðnings geti numið rúmum 14 milljörðum króna.
• Tímabundin hækkun starfslauna og styrkja fyrir árið 2021 og tímamörk verkefnastyrkja til menningarmála verða framlengd.
• Vitundarvakning um mikilvægi lista og menningar á Íslandi.
• Stofnun Sviðslistamiðstöðvar og Tónlistarmiðstöðvar.

Á næstu vikum verður haldið áfram að kanna og kortleggja aðstæður þeirra hópa listamanna sem til þessa hafa ekki geta nýtt sér stuðningsúrræði stjórnvalda.

Aðgerðirnar verða kynntar nánar á næstu vikum.

 


Fréttir