BHM afþakkar kjararýrnun

24.5.2019

  • bhm_adalfundur_2019_a-12
    Frá aðalfundi BHM sem fram fór á Hótel Reykjavík Natura 20. maí 2019.

Á aðalfundi Bandalags háskólamanna, sem haldinn var í gær, 23. maí 2019, voru samþykktar eftirfarandi ályktanir:

BHM afþakkar kjararýrnun
Kjaraviðræður opinberra starfsmanna meðal aðildarfélaga BHM hjá ríki og sveitarfélögum standa yfir. Viðsemjendur vilja gera kjarasamninga til langs tíma en hafa ekki lagt neinar tillögur á borðið sem styðja þá fyrirætlan.

Aðildarfélög BHM hafa lagt fram skýrar kröfur gagnvart Samninganefnd ríkisins, Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um nauðsyn þess að háskólamenntun hjá hinu opinbera sé metin til launa með sanngjörnum hætti. Flöt krónutöluhækkun launa samrýmist ekki kröfum aðildarfélaga BHM um eðlilegan ávinning háskólamenntunar á íslenskum vinnumarkaði. Nú hafa stjórnvöld, ríkisstjórn og sveitarstjórnir tækifæri til að sýna vilja sinn í verki og viðurkenna mikilvægi háskólamenntunar fyrir samfélagið. Það gera þau best með því að tryggja að menntun sé aðlaðandi fjárfesting til framtíðar.

Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á almannaþjónustu. Þeim ber að sjá til þess að eðlileg nýliðun verði í þeim starfsstéttum sem sinna henni.

Aðalfundur BHM krefst þess að lágmarkslaun háskólamenntaðra verði ekki lægri en 500 þúsund krónur á mánuði.

Heilsan á að ganga fyrir!
Mikilvægt er að bæta starfsumhverfi opinberra starfsmanna. Óheillaþróun hefur átt sér stað á vinnumarkaði vegna langvinns álags sem veldur sjúklegri streitu og getur leitt til kulnunar í starfi. Þetta endurspeglast m.a. í tölum um fjölda háskólamenntaðra sem leita til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs en fjöldinn hefur aukist verulega á undanförnum árum. Aðalfundur BHM kallar eftir því að stjórnvöld og vinnuveitendur bregðist tafarlaust við þessum vanda með markvissum aðgerðum. Almennt þarf að bæta jafnvægi milli vinnu og einkalífs í samfélaginu og koma í veg fyrir óhóflegt álag. Skil milli vinnutíma og frítíma þurfa að vera skýr. BHM bindur vonir við að í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög verði stigin raunveruleg skref í átt að styttingu vinnuvikunnar.

Komið verði betur til móts við greiðendur námslána
Aðalfundur BHM 2019 bendir á að flestir háskólanemar fjármagna nám sitt með námslánum sem eru verðtryggð og bera vexti. Þegar námi lýkur þarf fólk að greiða tæplega 4% af heildartekjum sínum í afborganir af lánunum, sem samsvarar u.þ.b. einum útborguðum mánaðarlaunum á ári. Það reynist mörgum þung byrði. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld breyti reglum og skilmálum til að létta þessa byrði og koma betur en nú er gert til móts við greiðendur námslána.

Sjóðfélagar í LSR og Brú fái einnig að nýta „tilgreinda séreign“
Aðalfundur BHM 2019 vekur athygli á því að með kjarasamningum ASÍ og SA frá því í janúar 2016 var launþegum á almennum vinnumarkaði gert skylt að greiða alls 15,5% af tekjum sínum í lífeyrissjóð. Hins vegar eiga þeir þess kost að beina allt að 3,5% í svokallaða „tilgreinda séreign“. Með öðrum orðum, þeir geta beint allri hækkun framlags í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5% í tilgreinda séreign. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur ekki viljað gefa sjóðfélögum sínum kost á að byggja upp séreign með sama hætti og sjóðfélagar á almenna vinnumarkaðnum geta gert. Þar með hefur sjóðurinn hafnað því að gefa sjóðfélögum kost á að beina sama hlutfalli lífeyrisgreiðslna í tilgreinda séreign. Farið er fram á að þetta verði leiðrétt. Í samræmi við markmið um að jafna lífeyrisrétt landsmanna ættu opinberir starfsmenn, sem greiða til LSR og Brúar lífeyrissjóðs, einnig að eiga kost á að greiða hluta af sínu lífeyrissjóðsframlagi í tilgreinda séreign.


Fréttir