BHM fær aðild að Norræna verkalýðssambandinu

26.4.2018

  • bild
    Á myndinni eru frá vinstri: Magnus Gissler, framkvæmdastjóri NFS; Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM; Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM og Karl-Petter Thorwaldsson, formaður NFS.

Stjórn Norræna verkalýðssambandsins (Nordens fackliga samorganisation – NFS) samþykkti á fundi sínum í morgun umsókn Bandalags háskólamanna um aðild að sambandinu. Þar með bætist BHM í hóp 15 heildarsamtaka launafólks frá öllum Norðurlöndunum með um 9 milljónir félagsmanna innan sinna raða en hlutverk NFS er að stuðla að nánu samstarfi milli aðildarsamtaka þess og standa að sameiginlegri hagsmunagæslu. Með aðildinni fær BHM möguleika á að fylgjast með og hafa áhrif á þróun vinnumarkaðar á Norðurlöndum og í Evrópu.

„Við fögnum því að BHM hafi nú fengið aðild að þessu mikilvæga samstarfi heildarsamtaka launafólks á Norðurlöndunum og munum taka virkan þátt í þeirri réttindabaráttu og hagsmunagæslu sem fram fer á þessum vettvangi,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Norræna verkalýðssambandið var stofnað árið 1972 og er samstarfsvettvangur 16 heildarsamtaka launafólks frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þrenn íslensk heildarsamtök eiga aðild að sambandinu: ASÍ, BHM og BSRB. NFS er viðurkenndur fulltrúi norræns launafólks á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart þessum aðilum. Þá hafa samtök innan NFS víðtækt samráð og samstarf er varðar málefni evrópsks vinnumarkaðar og á vettvangi Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC). Enn fremur tekur NFS þátt í samstarfi við verklýðshreyfingu í Eystrasaltsríkjunum og gegnir samræmingarhlutverki gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (ITUC) og Ráðgjafarnefnd verkalýðshreyfingarinnar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (TUAC). Samhliða aðildinni að NFS hefur BHM sótt um aðild að ETUC, ITUC og TUAC.


Fréttir