BHM fagnar frumvarpi til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila en lýsir áhyggjum af skilyrðum þess

Umsagnir BHM um frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna kórónuveirufaraldurs og frumvarp um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldurs

5.5.2020

BHM hefur verulegar áhyggjur af því að skilyrði frumvarps um stuðning við minni rekstraraðila séu of ströng fyrir suma hópa sjálfstætt starfandi einstaklinga. Margir sjálfstætt starfandi séu með lífvænleg fyrirtæki þótt þeir nái ekki að uppfylla öll fimm skilyrði fyrir lokunarstyrk eða öll átta skilyrði fyrir stuðningsláni. Mikilvægt sé að horfa til einstakra tilfella og að skilyrðin verði ekki of íþyngjandi fyrir minni rekstraraðila að nýta sér.

Einnig þarf að tryggja að frumvarpið nái utan um minni rekstraraðila óháð rekstrarformi, þ.e. hvort sem viðkomandi er með rekstur á eigin kennitölu eða með sérstaka kennitölu um rekstur sinn.

Sjálfstætt starfandi mismunað

Kveða þarf skýrar á um hvernig lokunarstyrkir og stuðningslán haldast í hendur við önnur úrræði ríkisstjórnarinnar í heimsfaraldri kórónuveiru. Þetta er afar mikilvæg fyrir t.d. sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hefur verið gert að loka starfsemi og hafa nýtt sér hlutabótaleið eða farið á atvinnuleysisbætur.

Einnig er talað um að atvinnustarfsemi þurfi að hafa verið fullburða en ekki hliðarstarf. Þetta mismunar þeim sjálfstætt starfandi einstaklingum sem hafa lifibrauð sitt af blandaðri starfsemi, þ.e. eru bæði sjálfstætt starfandi og launafólk, eins og títt er t.d. um sviðslistafólk og aðra í menningartengdri starfsemi. Lagt er til að lokunarstyrkir nái einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem stunda blandaða starfsemi og að lokunarstyrkur reiknist hlutfallslega miðað við starfshlutfall.

Einnig bendir BHM á að of mikill munur sé á milli lágmarkstekna vegna lokunarstyrkja og stuðningslána. Hætta sé á að stór hópur minni rekstraraðila geti einungis nýtt sér annað úrræðið. Margir sjálfstætt starfandi séu með fullburða atvinnustarfsemi þótt þeir nái ekki upp í 750 þús á mánuði, en þeir hafi nú eingöngu möguleika á lokunarstyrk.

Jafnframt telur BHM að skilyrðið um 75% tekjutap milli ára til þess að eiga rétt á lokunarstyrk sé of hátt. Tekjutap getur verið verulegt hjá sjálfstætt starfandi þó það nái ekki 75% milli ára.

Aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldurs

BHM lýsir yfir ánægju sinni með framlengingu á tímabundnum greiðslum vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví og að umsóknarfrestur um þetta úrræði hafi verið framlengdur til 31. desember 2020. BHM leggur þó mikla áherslu á að búinn verði til farvegur eða ferli svo hægt sé að taka fyrir einstök mál og skoða  sérstaklega. Það sé mikilvægt til að tryggja að lögin nái til sem flestra og að hópar fólks falli ekki milli skips og bryggju í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. 

Smelltu hér til að lesa umsögn um frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstaraðila vegna heimsfaraldurskórónuveiru, mál 725.
Smelltu hér til að lesa umsögn um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, mál 726.