BHM fundar með Vinnumálastofnun vegna stöðu háskólamenntaðra atvinnuleitenda

16.2.2018

Þrátt fyrir að efnahagsástand sé almennt gott um þessar mundir og atvinnuleysi sé í heild lítið í sögulegu samhengi er það enn töluvert meðal háskólafólks. Þannig voru samtals rúmlega 1.100 háskólamenntaðir á atvinnuleysiskrá í janúar sl., þar af 150 viðskiptafræðingar, 54 lögfræðingar, 33 kennarar, 18 verk- og tæknifræðingar, 13 með félagsfræðimenntun og 876 með aðra háskólamenntun. Nokkuð hefur þó dregið úr atvinnuleysi háskólamenntaðs fólks undanfarin ár. Í ársbyrjun 2015 voru tæplega 1.500 háskólamennaðir á atvinnuleysisskrá, um 1.300 í ársbyrjun 2016 og rúmlega 1.200 í byrjun síðasta árs. 

BHM hefur gegnum árin lýst áhyggjum af stöðu þessa hóps og hvatt stjórnvöld til að móta langtímastefnu í efnahags- og atvinnumálum í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Á næstunni mun BHM funda með fulltrúum Vinnumálastofnunar til að greina stöðuna og fara yfir þau úrræði sem stofnunin býður háskólamenntuðum atvinnuleitendum. Í þessu sambandi má nefna að í bréfi sem forstjóri Vinnumálastofnunar sendi nýlega til forstöðumanna ríkisstofnana og framkvæmdastjóra sveitarfélaga eru þeir hvattir til að bjóða atvinnuleitendum með háskólamenntun þau sumarstörf sem til falla á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þessum aðilum býðst að fá svokallaðan starfsþjálfunarstyrk frá Vinnumálstofnun með hverjum háskólamenntuðum atvinnuleitanda sem ráðinn verður í sumarstarf. Skilyrðið er að viðkomandi hafi verið þrjá mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá. Styrkfjárhæðin getur numið annaðhvort hálfum eða fullum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði en fullar bætur nema nú rúmum 227 þúsund krónum.


Fréttir