BHM gerir alvarlegar athugasemdir við auglýsingu um ólaunað starfsnám í félagsmálaráðuneytinu

Undrast ummæli ráðuneytisstjóra í fréttum RÚV

22.1.2019

  • logo_felagsmalaraduneytid

BHM hefur sent félags- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, bréf þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við auglýsingu um ólaunað starfsnám í félagsmálaráðuneytinu fyrir laganema. Að mati BHM brýtur auglýsingin gegn ákvæðum laga og kjarasamninga um lágmarkskjör.

Í  umræddri auglýsingu, sem birtist á facebook-síðu Atvinnunefndar Orators, félags laganema, er auglýst eftir nema sem lokið hefur BA-gráðu í lögfræði og stundar eða hefur lokið meistaranámi í þeirri grein. Fram kemur að starfsnámið sé ólaunað og að auk framangreindrar menntunar skuli viðkomandi hafa „góða kunnáttu í íslensku og ensku, góða ritfærni á íslensku, gott tölvulæsi og getu til að vinna sjálfstætt.“

Í bréfi sínu til ráðherra bendir BHM á að samkvæmt lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé vinnuveitendum óheimilt að ráða til sín fólk á lakari kjörum en kjarasamningar kveði á um. Í gildi sé stofnanasamningur milli Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) og ráðuneytanna. Ákvæði í þessum samningi um laun starfsnema teljist lágmarkskjör samkvæmt fyrrnefndum lögum.

Þá segir í bréfinu að BHM telji jákvætt að fyrirtæki og stofnanir gefi nemendum í framhaldsnámi færi á að hagnýta þekkingu sína á vinnumarkaði samhliða námi. Hins vegar séu mörkin milli starfsnáms og ólaunaðs starfs mjög óskýr. Einstaklingur sem lokið hafi BA- og MA-gráðu í lögfræði sé ekki lengur nemi heldur einstaklingur á vinnumarkaði. Auglýsingin feli því í sér brot gegn lögum og kjarasamningum: „BHM gerir kröfu um að félagsmálaráðuneytið greiði þeim sem verður fyrir valinu þau lágmarkslaun sem um starf þetta gilda samkvæmt stofnanasamningi FHSS og ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands."

Ekki ágreiningur milli BHM og háskólanna

Í hádegisfréttum RÚV í dag, 22. janúar 2019, sagði ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, Gissur Pétursson, að sér sýndist sem ágreiningur væri um það milli BHM og háskólanna hvort greiða ætti laun fyrir starfsnám. Einnig sagði ráðuneytisstjórinn að ráðuneytið vildi ekki blanda sér í þennan ágreining og því hafi það ákveðið að hætta við verkefnið.

Vegna þessara ummæla ráðuneytisstjórans vill BHM taka fram að bandalagið kannast ekki við að ágreiningur sé uppi milli þess og háskólanna um hvort greiða eigi fyrir starfsnám eða ekki. Bandalagið undrast að ráðuneytisstjórinn skuli vísa í slíkan ágreining og segi að ráðuneytið vilji ekki blanda sér í hann. Að mati BHM bera ummælin með sér að ráðuneytið sé að reyna að fría sig ábyrgð á umræddri auglýsingu. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að nýlega skipaði félags- og barnamálaráðherra starfshóp gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Hópurinn hefur m.a. fjallað um mikilvægi þess að settar verði skýrar reglur um starfsnám og starfsþjálfun til að koma í veg fyrir að brotið sé gegn ákvæðum laga og kjarasamninga um lágmarkskjör.

Þá má geta þess að BHM og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa kallað eftir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji skýrar reglur um starfsnám á háskólastigi í samráði við BHM og LÍS. Í bréfi sem samtökin sendu mennta- og menningarmálaráðherra árið 2017 sagði m.a. orðrétt: „Starfsnám skal ávallt vera álitið sem leið nemenda til að öðlast reynslu úti á vinnumarkaði í tengslum við nám sitt. Það má aldrei líta á það sem leið fyrirtækja til að laða til sín ódýrt vinnuafl."

Bréf BHM til félags- og barnamálaráðherra