BHM gerir athugasemd við ólaunaða stöðu hjá WOW air

12.2.2016

Meðfylgjandi er bréf lögmanns BHM til WOW air. Tilefni bréfsins er auglýsing sem birtist á heimasíðu WOW air þar sem óskað er eftir lögfræðinema í starfsnám. Kemur fram að starfsnámið sé 160 klst og að starfið sé ólaunað.


WOW air
Skúli Mogensen
Katrínartúni 12

105 Reykjavík

                                                                                                                     11. febrúar 2016

 

Efni: Athugasemdir BHM við ólaunaða stöðu hjá WOW air


Tilefni bréfs BHM er auglýsing sem birtist á heimasíðu WOW air http://wowair.is/wow-upplifun/viltu-vera-memm?radavac=logfraedinemi

Um er að ræða auglýsingu þar sem óskað er eftir lögfræðinema í starfsnám. Kemur fram að starfsnámið sé 160 klst og að starfið sé ólaunað. Hæfniskröfur sem gerðar eru til umsækjanda eru eftirfarandi:

„BA gráða í lögfræði er skilyrði

Viðkomandi þarf að hafa hafið mastersnám

Gott vald á íslensku og ensku

Skipulögð vinnubrögð

Fagmennska, frumkvæði og sjálfstæði í starfi

Mjög góð samskipta- og samstarfshæfni

Geta til að blómstra í hröðu og krefjandi vinnuumhverfi með jákvæðni að leiðarljósi“

BHM gerir alvarlegar athugasemdir við auglýsingu WOW air um ólaunað starfsnám þar sem auglýst er eftir háskólamenntuðum starfsmanni með BA gráðu í lögfræði sem skilyrði.

Í kjarasamningum, þ.m.t kjarasamningum sem Stéttarfélag lögfræðinga á aðild að, er kveðið á um hvaða lágmarkslaun skuli greidd fyrir tiltekin störf. Ákvæði í kjarasamningum eru lágmarkskjör. Vinnuveitendum er þannig með öllu óheimilt að ráða til sín starfsmenn á lakari kjörum en kjarasamningar kveða á um. Samningar sem kveða á um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógildir. Í þessu sambandi vísar undirrituð til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Í 1. gr. laganna segir orðrétt: "Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir."


Þess má geta að íslenskir háskólar hafa búið til regluverk um starfsnám nemenda í framhaldsnámi. BHM hefur ekki samþykkt regluverkið og gerir sérstaklega athugasemdir við reglur lagadeildar Háskólans í Reykjavík (HR) sem ganga út á að starfsnámið sé ólaunað. Ekki er kveðið á um ólaunað starfsnám í reglum atvinnunefndar Orators hjá lagadeild Háskóla Íslands (HÍ). 

Það er hins vegar sammerkt með HÍ og HR að þeir skipuleggja starfsnámið í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki en svo virðist sem það sé ekki gert í þessu tilviki.

BHM telur jákvætt ef fyrirtæki og stofnanir gefa nemendum í framhaldsnámi færi á að hagnýta þekkingu sína á atvinnumarkaðinum samhliða námi þar sem starfsnámið er sannarlega til þess fallið að auka þekkingu nemandans í lögfræði og hæfni til að vinna að úrlausn lögfræðilegra verkefna.

Mörkin milli starfsnáms annars vegar og ólaunaðs starfs hins vegar eru mjög óskýr og hefur BHM lagt áherslu á að greitt verði fyrir starfsnám. Í því tilviki sem hér um ræðir benda hæfniskröfurnar sem gerðar eru til umsækjanda í auglýsingu WOW air eindregið til þess að um ólaunað starf er að ræða. Það brýtur gegn lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

BHM gerir kröfu um að WOW air greiði þeim sem verður fyrir valinu þau lágmarkslaun sem um starf þetta gildir. Óskað er eftir svari við erindi þessu.


F.h BHM
Erna Guðmundsdóttir hdl, lögmaður BHMLögfræðinemi


Umsóknarfrestur til og með 14. febrúar 2016

Vertu í góðum félagsskap!
Okkur vantar nema - vantar þig reynslu?
 

WOW air óskar eftir áhugasömum lögfræðinema í spennandi starfsnám. Viðkomandi kemur til með að vinna að fjölbreyttum og krefjandi verkefnum í skemmtilegu umhverfi. Verkefnin felast einkum í gagnaöflun og lögfræðilegum greiningum á ýmsum réttarsviðum. Yfirlögfræðingur WOW air mun hafa yfirumsjón með verkefnunum. Starfsnámið er 160 klst. og er vinnutími eftir samkomulagi. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf fljótlega. Starfið er ólaunað, en ef gagnkvæmur áhugi er fyrir hendi gæti sumarstarf verið í boði í framhaldinu. 
 

Hæfniskröfur

  • BA gráða í lögfræði er skilyrði
  • Viðkomandi þarf að hafa hafið mastersnám
  • Gott vald á íslensku og ensku
  • Skipulögð vinnubrögð
  • Fagmennska, frumkvæði og sjálfstæði í starfi
  • Mjög góð samskipta- og samstarfshæfni
  • Geta til að blómstra í hröðu og krefjandi vinnuumhverfi með jákvæðni að leiðarljósi
     

Aðrar upplýsingar

WOW air er lággjaldaflugfélag með það að markmiði að bjóða ávallt upp á ódýrustu fargjöldin til og gera þannig öllum fært að ferðast. WOW air er metnaðarfullt félag sem hefur vaxið mjög ört og við hlökkum til að efla samkeppni í flugi enn frekar á komandi árum með nýjum spennandi áfangastöðum. Við leggjum mikið upp úr því að hafa gaman af því sem við erum að gera, bæði á skrifstofunni og gagnvart gestum okkar. Hjá okkur starfa nú um 300 starfsmenn. 
  (http://wowair.is/wow-upplifun/viltu-vera-memm?radavac=logfraedinemi)Fréttir