BHM gerir ýmsar athugasemdir við fjárlagafrumvarpið

16.10.2018

  • althingi

Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 lýsir BHM vonbrigðum með að stjórnvöld hafi ekki markað skýra stefnu um það hvernig skuli tekið á launasetningu ákveðinna háskólamenntaðra hópa á vinnumarkaði. Í þessu sambandi minnir BHM á yfirlýsingu sem þrír ráðherrar gáfu út í tengslum við kjarasamninga við 16 aðildarfélög bandalagsins í febrúar sl. Þar er fjallað um gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið, stefnu og aðgerðaráætlunar sem styðji við það markmið að bæta kjör heilbrigðisstétta. Í umsögninni segir að óljóst sé hvaða fjármunir séu ætlaðir til þessara verkefna eða hvernig dreifa eigi fjármunum milli stofnana. Þó sé ánægjulegt að sjá að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að framlög til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu verði hækkuð til að bæta mönnun.

Áform um hækkanir gjalda gagnrýnd

Einnig kemur fram í umsögninni að BHM telur að hvorki frumvarpið né fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar endurspegli fyrirheit um að fjárframlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkja árið 2020. Þá gagnrýnir BHM áform ríkisstjórnarinnar um víðtækar hækkanir á opinberum gjöldum sem birtast í sérstöku lagafrumvarpi sem fylgir fjárlagafrumvarpinu:

„Ýmsir hópar félagsmanna aðildarfélaga BHM hafa beðið árum saman eftir því að launasetning þeirra verði leiðrétt í samræmi við breytingar á eðli starfanna sem þeir sinna, auknar menntunarkröfur og ábyrgð. Það er ótækt að farið sé fram á að þessir hópar bíði með sínar málefnalegu og sanngjörnu leiðréttingarkröfur í nafni stöðugleika á sama tíma og stjórnvöld leggja til verulegar hækkanir opinberra gjalda.“

Viðmiðunarmörk barnabóta of lág

Í umsögninni er bent á að viðmiðunarmörk skerðinga á barnabótum séu of lág. Barnabætur geti vart talist annað en fátækrastyrkur:

„Hjón á meðaltekjum aðildarfélaga BHM hjá ríkinu fá engar barnabætur og hækkanir sem lagðar eru til í þessu fjárlagafrumvarpi breyta þar engu um. BHM bendir stjórnvöldum á að víða í nágrannalöndum okkar er réttur til bóta bundinn við barn en miðast ekki að öllu leyti við tekjur foreldra.“

BHM telur að hækkun persónuafsláttar og þrepamarka efra skattþreps sé til bóta en ráði varla úrslitum í aðdraganda kjarsamninga. Þar þurfi mun meira að koma til. Hins vegar fagnar bandalagið áformum um lækkun tryggingagjalds. Þá telur bandalagið mikilvægt að þak á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkað svo það markmið náist að báðir foreldrar taki ávallt fæðingarorlof, óháð tekjum.

Fjallað er um ýmis fleiri atriði í umsögninni, s.s. lífeyrismál, umbætur í ríkisrekstri og málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið