BHM kallar eftir tafarlausum aðgerðum til að bregðast við stöðunni á vinnumarkaði

18.8.2020

  • atvl_4

BHM skorar á stjórnvöld að hækka hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta og lengja tímabil tekjutengingar til að bæta afkomuöryggi fólks sem misst hefur vinnuna vegna samdráttar af völdum kórónuveirufaraldursins. Einnig vill bandalagið að grunnupphæð atvinnuleysisbóta verði hækkuð en venjulegar fullar atvinnuleysisbætur eru nú kr. 289.510. Þá telur bandalagið mikilvægt að atvinnuleitendum verði gert kleift að stunda nám á næstu misserum án þess að það skerði rétt þeirra til atvinnuleysisbóta. Loks telur BHM brýnt að stjórnvöld grípi til sértækra aðgerða til að tryggja listafólki framfærslu en faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa kippt fótunum undan afkomu þessa hóps.

Atvl_5Íslenska hagkerfið stendur nú frammi fyrir einum mesta samdrætti sem mælst hefur síðustu 150 árin. Á sama tíma eru meira en 4.500 háskólamenntaðir einstaklingar án atvinnu eða um 85% fleiri en í kjölfar efnahagshrunsins árið 2009, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Í nýútkominni þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir rúmlega 8% samdrætti á árinu 2020 eða um 10% á hvern íbúa landsins. Leita þarf aftur til áranna 1882, 1916 og 1920 til að finna viðlíka samdrátt í efnahagslegum lífsgæðum. 


Tekjuskerðingin getur numið 55%

Háskólamenntað fólk sem verður fyrir því að missa vinnuna um þessar mundir verður fyrir miklu fjárhagslegu áfalli, samkvæmt útreikningum BHM. Sé litið á einfaldan samanburð milli meðaltals heildarlauna í starfi og atvinnuleysisbóta má sjá að háskólamenntaður sérfræðingur sem horfir fram á atvinnuleysi í eitt ár tapar um 335 þúsund krónum í ráðstöfunartekjur að meðaltali á mánuði við að missa vinnuna. Jafngildir það um um 55% tekjuskerðingu að meðaltali á ársgrundvelli.[1]

Atvl_2

Brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða

BHM kallar eftir því að stjórnvöld bregðist þegar í stað við þeirri stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði:

1. Hækka verður hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta og lengja tíma tekjutengingar

Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er nú 456.404 kr. á mánuði en réttur til tekjutengingar atvinnuleysisbóta gildir í 3 mánuði samtals frá upphafi bótatímabils. BHM skorar á stjórnvöld að hækka þetta hámark og lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta í 6 mánuði til að bæta afkomuöryggi atvinnulausra á næstu misserum.

2. Hækka þarf grunnupphæð atvinnuleysisbóta

Venjulegar fullar atvinnuleysisbætur eru kr. 289.510 kr. á mánuði. BHM skorar á stjórnvöld að hækka þessa fjárhæð.

3. Gerum atvinnulausum kleift að afla sér menntunar í vetur

Atvinnuleysistryggingakerfið er hannað með það í huga að hámarka hvata atvinnulausra til að koma sér aftur á vinnumarkað. Atvinnulausum háskólamenntuðum sérfræðingi er þannig ekki heimilt að stunda meira en 20 ECTS-eininga nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þá getur einstaklingur sem fær greiddar atvinnuleysisbætur ekki haldið áfram námi sem viðkomandi hafði stundað samhliða fyrri vinnu. BHM telur brýnt að endurskoða þetta ákvæði og breyta því a.m.k. tímabundið þannig að háskólamenntuðum sé gert kleift að bæta við sig þekkingu meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Atvinnutækifæri á markaði eru enda af skornum skammti og möguleikar til virkrar atvinnuleitar því fá. Hvatarnir sem byggðir eru inn í atvinnuleysistryggingakerfið eiga því ekki við í mörgum tilfellum enda fá störf í boði fyrir háskólamenntaða og fyrirséð að svo verði áfram. 

4. Koma verður til móts við listafólk

Staða listafólks á vinnumarkaði er slæm og tekjufall þess mikið enda koma samkomutakmarkanir og aðrar ráðstafanir yfirvalda vegna faraldursins sérstaklega illa niður á þessum hópi, t.d. leikurum og hljómlistarmönnum. Ekki sér fyrir endann á samkomubanni og ljóst að veturinn gæti orðið listafólki afar þungur. BHM skorar á stjórnvöld að grípa til sértækra aðgerða sem koma til móts við listafólk í landinu. Huga verður sérstaklega að sjálfstætt starfandi í þessu samhengi. Ekki hefur verið nóg að gert. Huga þarf að fjármögnun listastofnana og tryggja listafólki framfærslu á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi.


[1] Hér er byggt á tölum um heildarlaun í fullu starfi og þær bornar saman við atvinnuleysisbætur. Tekið er tillit til tekjutenginga hluta tímans. Samanburðurinn byggir á launum og tekjuskatti en ekki er tekið tillit til annarra frádráttarliða. 


Fréttir