BHM mótmælir því að ríkisstarfsmenn sem snúa heim að utan fái ekki greidd laun í sóttkví

22.7.2020

BHM hefur sent Kjara- og mannauðssýslu ríkisins (KMR) bréf þar sem því er mótmælt að ríkisstarfsmenn sem þurfa að sæta fimm daga sóttkví (heimkomusmitgát) eftir að hafa verið í fríi erlendis fái ekki greidd laun fyrir þá daga sem sóttkvíin varir. Bandalagið telur að þetta fari í bága við lög og kjarasamninga.

Forsaga málsins er sú að síðastliðið vor gaf KMR út leiðbeiningarreglur til ríkisstofnana þar sem kveðið er á um að ríkisstarfsmaður sem sætir sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda eigi að fá greidd meðaltalslaun í samræmi við kjarasamninga. Fjarvistir frá vinnu af þessum sökum eigi ekki að teljast til veikinda. Nýlega hefur KMR breytt afstöðu sinni í þessu efni og fá ríkisstarfsmenn sem gert er að sæta fimm daga sóttkví við heimkomu frá útlöndum nú ekki greidd laun fyrir þessa daga.

Í bréfi BHM er bent á að landamæri Íslands séu opin og að Íslendingum sé frjálst að ferðast til annarra landa. Óheimilt sé samkvæmt lögum og kjarasamningum að svipta ríkisstarfsmenn launum meðan þeir sæta sóttkví að fyrirskipun heilbrigðisyfirvalda eftir að hafa ferðast til landa sem heimilt er að ferðast til. Að mati BHM er enginn eðlismunur á heimkomusmitgát og þeirri sóttkví sem fjallað er um í leiðbeiningarreglum KMR frá því í vor. Í báðum tilvikum sé starfsmaðurinn skikkaður í sóttkví af heilbrigðisyfirvöldum og hafi ekkert um það að segja. Engu máli skipti þótt starfsmaðurinn hafi sjálfur ákveðið að fara í frí til útlanda. Hins vegar væri annað uppi á teningnum ef stjórnvöld bönnuðu ferðalög til einhverra landa en starfsmaðurinn kysi engu að síður að ferðast þangað.

BHM fer fram á að KMR taki fyrrnefnda afstöðubreytingu tafarlaust til endurskoðunar. Að öðrum kosti áskilur bandalagið sér rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða í því skyni að fá hlut félagsmanna leiðréttan.

Bréf BHM til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins


Fréttir