BHM mótmælir uppsögnum hjá SÍ og dregur lögmæti þeirra í efa

12.10.2020

  • sjukratryggingar

BHM hefur sent forstjóra Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) bréf þar sem nýlegum uppsögnum stjórnenda hjá stofnuninni er mótmælt og lögmæti þeirra dregið í efa. Bandalagið skorar á stofnunina að draga uppsagnirnar til baka.

Nýlega var tilkynnt um skipulagsbreytingar hjá SÍ sem taka gildi frá og með næstu áramótum. Í tengslum við þær var 22 stjórnendum sagt upp en sumum þeirra boðnar nýjar stjórnunarstöður innan stofnunarinnar. Öðrum voru boðin lægra launuð störf sérfræðinga.

Fram kemur í bréfi BHM, sem lögmaður bandalagsins undirritar, að ekki liggi fyrir hvaða verkefnum fyrrverandi stjórnendum sé ætlað að sinna kjósi þeir að þiggja lægra launuð störf sérfræðinga. Að mati bandalagsins er þetta gagnrýnivert. Einnig er bent á að einhverjum stjórnendum hafi verið tjáð að ekki tæki því fyrir þau að sækja um nýja stjórnunarstöðu hjá stofnuninni þar sem þau uppfylltu ekki hæfnisskilyrði.

Þá kemur fram að forstjóri SÍ hafi lýst því yfir að samkvæmt lögum sé stofnuninni skylt að auglýsa lausar stöður. Hins vegar hafi hún við sama tækifæri nefnt að þeim sem sagt yrði upp störfum yrðu boðin önnur störf hjá stofnuninni. BHM gagnrýnir þetta misræmi og kallar eftir skýringum á því. Ljóst sé að minnst sex stjórnendum samkvæmt núgildandi skipuriti standi til boða að halda áfram sem stjórnendur án þess að þær stöður verði auglýstar: „Hafi meðalhófs og jafnræðis verið gætt er stofnuninni hægt um vik að leggja fram gögn því til staðfestingar að fram hafi farið persónubundið mat á hverjum og einum stjórnanda og ákvörðun um uppsögn eða áframhaldandi störf hafi verið tekin á grundvelli þess.“

Í niðurlagi bréfisins er skorað á stofnunina að draga uppsagnirnar til baka og bíða með að auglýsa nýjar stöður þar til gengið hefur verið úr skugga um lögmæti uppsagnanna.


Fréttir