BHM og LÍS fræða háskólanema um kjör og réttindi

Samstarfssamningur endurnýjaður

1.7.2019

  • BHM_LIS_2019
    Sonja Björg Jóhannsdóttir, forseti LÍS, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, handsala nýja samstarfssamninginn.

BHM og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa endurnýjað samstarfssamning sinn sem gerður var á síðasta ári. Markmiðið er sem fyrr að efla þekkingu stúdenta á kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði og vinna saman að stefnumótun um sameiginleg hagsmunamál.

Hinn endurnýjaði samstarfssamningur er í flestum atriðum efnislega samhljóða fyrri samstarfssamningi aðila sem undirritaður var árið 2018. Sem dæmi má nefna að LÍS mun áfram eiga rétt til þátttöku í stefnumótun BHM um sameiginleg hagsmuna- og réttindamál og áfram vera tengiliður BHM við Gæðaráð háskólanna, líkt og kveðið var á um í eldri samningi. Þá munu aðilar áfram beita sér sameiginlega fyrir því að settar verði skýrar reglur um starfsnám á háskólastigi. Í samningnum er þó það nýmæli að aðilar munu vinna í sameiningu að gerð fræðslumyndbanda um kjara- og réttindamál háskólamenntaðra á vinnumarkaði sem dreift verður á samfélagsmiðlum og víðar. Gerð myndbandanna hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en stefnt er að því að framleiðslan fari fram á haustmánuðum.

Fulltrúar LÍS munu hafa seturétt á upplýsingafundum BHM og fá afnot af skrifstofu- og fundaaðstöðu í húsakynnum bandalagsins, eins og verið hefur. Gildistími nýja samningsins er frá 1. júní 2019 til 31. maí 2020 og skal hann endurskoðaður í apríl 2020.


Fréttir