BHM og Vinnumálastofnun taka höndum saman til að vinna á atvinnuleysi meðal háskólafólks

Hvetja vinnuveitendur til að ráða háskólamenntað fólk með stuðningi frá Vinnumálstofnun

20.3.2019

  • BHM_VMST_auglysing

Að undanförnu hefur fólki með háskólamenntun sem skráð er án atvinnu fjölgað ört. Í janúar á þessu ári voru þannig samtals 1.447 háskólamenntaðir einstaklingar á atvinnuleysisskrá (828 konur og 619 karlar) en voru samtals 1.095 á sama tíma í fyrra. Um er að ræða tæplega þriðjungs fjölgun milli ára. Fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hefur ekki verið meiri frá því í mars 2015.

Til að bregðast við þessari neikvæðu þróun hafa BHM og Vinnumálastofnun nú ákveðið að efna til sameiginlegs átaks til að kynna forráðamönnum fyrirtækja og stofnana þann stuðning sem þeim býðst ef þau ráða háskólamenntað fólk til starfa, t.d. vegna sumarafleysinga eða tímabundinna verkefna. Þessi stuðningur er einkum tvenns konar. Annars vegar svokallaðir starfsþjálfunarstyrkir sem Vinnumálastofnun greiðir með hverjum atvinnuleitanda sem fær starf. Þessir styrkir geta numið annaðhvort hálfum eða heilum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði. Hins vegar svokallaðir starfsorkusamningar en þeir eru sérstaklega hugsaðir til að auðvelda fyrirtækjum í nýsköpun og þróun að ráða fólk til starfa. Þeir fela í sér að Vinnumálastofnun greiðir styrki með atvinnuleitendum sem ráðnir eru til starfa við nýsköpunar- eða þróunarverkefni. 

Samstarf BHM og Vinnumálastofnunar felst í viðamiklu kynningarátaki sem beinist að forráðamönnum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Kynningin fer bæði fram með beinum samskiptum við markhópinn en einnig gegnum auglýsingar á samfélagsmiðlum, í dagblöðum, netmiðlum, útvarpi og sjónvarpi.

Fyrirtæki og stofnanir sem vilja nýta sér þann stuðning sem Vinnumálastofnun býður eru hvött til að hafa samband við einhverja af eftirtöldum þjónustuskrifstofum stofnunarinnar sem finna má um land allt:

Höfuðborgarsvæðið: vinnumidlun@vmst.is

Vesturland: vesturland@vmst.is

Vestfirðir: vestfirdir@vmst.is

Norðurland vestra: nordurland.vestra@vmst.is

Norðurland eystra: nordurland.eystra@vmst.is

Austurland: austurland@vmst.is

Suðurland: sudurland@vmst.is

Suðurnes: sudurnes@vmst.is

Sjá nánar á vef Vinnumálstofnunar