BHM skorar á þingmenn að breyta LSR-frumvarpi

Bandalag háskólamanna sendi í dag alþingismönnum áskorun vegna frumvarps til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) sem nú er til meðferðar á Alþingi. 

20.12.2016

  • BHM_an_skriftar

Áskorunin er svohljóðandi:

,,Frumvarp til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna (LSR) hefur verið tekið til annarrar umræðu á Alþingi Íslendinga. Við afgreiðslu málsins úr nefnd kaus meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar að hafa að engu athugasemdir BHM við frumvarpið. Þær lúta að því að frumvarpinu verði breytt til samræmis við samkomulag um lífeyrismál sem undirritað var í september sl. Afstaða þingmanna veldur BHM vonbrigðum og boðar ekki bætt samskipti á vinnumarkaði. Það er óskiljanlegt að handhafar framkvæmda- og löggjafarvalds skuli ítrekað virða kröfur og vilja aðildarfélaga BHM að vettugi. Slíkt framferði er til þess fallið að grafa undan trausti og góðum samskiptum við stjórnvöld.

Forsaga þessa máls er sú að hinn 19. september sl. undirrituðu bandalög opinberra starfsmanna samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytt fyrirkomulag lífeyrismál opinberra starfsmanna. Samkomulagið var afrakstur sjö ára ferlis sem hafði að markmiði að samræma lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. BHM hefur lengi verið fylgjandi slíkri samræmingu en ávallt lagt áherslu á að réttindi núverandi sjóðfélaga mætti ekki skerða. Samkomulagið fól í sér að núverandi sjóðfélagar héldu óskertum réttindum með sérstökum framlögum ríkisins til A-deildar LSR. Í kjölfar undirritunar samkomulagsins lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp á Alþingi um LSR. Frumvarpið var ekki í fullu samræmi við efni samkomulagsins og gerði BHM athugasemdir við það í skriflegri umsögn til fjárlaganefndar en málið var þá á forræði hennar. Misræmið fólst einkum í því að ekki var í frumvarpinu tryggt að allir núverandi sjóðfélagar yrðu jafnsettir fyrir og eftir breytingar. Svo fór hins vegar að ekki náðist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok.

Eftir að fundum Alþingis var frestað hinn 13. október sl. ritaði formaður BHM bréf til forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna þar sem þeir voru hvattir til að beita sér fyrir lagasetningu um málið í samræmi við fyrrnefnt samkomulag um leið og nýtt þing kæmi saman eftir kosningar. Lýsti formaðurinn því yfir að bandalagið vildi leggja sitt af mörkum til að unnt væri að skapa góða sátt um málið. Þegar nýkjörið þing kom saman lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram nýtt frumvarp sem var efnislega nánast samhljóða hinu fyrra. BHM ítrekaði þá fyrri athugasemdir sínar og setti fram nýjar í skriflegri umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar sem haft hefur málið á sínu borði.

Nú hefur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar kosið að hunsa athugasemdir BHM við frumvarpið og er það miður. Alþingi hefur þó enn tækifæri til að breyta frumvarpinu. BHM skorar á þingmenn að taka tillit til fram kominna athugasemda og gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu. Ábyrgð á breyttu fyrirkomulagi lífeyrismála hér á landi hvílir öll á herðum alþingismanna."


Fréttir