BHM styður kröfur stúdenta um hærri framfærslulán og frítekjumark hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna

BHM hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) um úrbætur á námslánakerfinu.

22.2.2019

  • LIS

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa réttilega bent á að framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) duga ekki til framfærslu hér á landi. Námsmaður í leigu- eða eigin húsnæði fær nú að hámarki um 184 þúsund krónur í framfærslulán á mánuði. Sjóðurinn veitir slík lán aðeins í níu mánuði á ári og er gert ráð fyrir að námsmenn brúi bilið milli ófullnægjandi lána og raunverulegs framfærslukostnaðar með vinnu í þrjá mánuði. Hins vegar eru möguleikar námsmanna til að gera slíkt afar takmarkaðir því frítekjumark sjóðsins er lágt, aðeins 930 þúsund krónur fyrir skatt. Séu tekjur umfram þetta mark skerðast lánin. LÍS hafa því krafist þess að bæði framfærslulánin og frítekjumarkið verði hækkuð.

BHM lýsir yfir fullum stuðningi við þessar sanngjörnu og réttmætu kröfur LÍS.