Blásið til kjararáðstefnu BHM þriðjudaginn 15. janúar

Enn eiga nokkur aðildarfélög eftir að tilkynna um fulltrúa sína á ráðstefnunni

10.1.2019

  • IMG_7665a

Að undanförnu hafa aðildarfélög BHM unnið að mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við ríki og sveitarfélög. Næstkomandi þriðjudag,15. janúar, efnir bandalagið til kjararáðstefnu þar sem kynntar verða niðurstöður sameiginlegra funda aðildarfélaganna um kröfur á hendur þessum aðilum. Einnig verður fjallað um þá þjónustu sem BHM mun veita félögunum vegna viðræðnanna og áherslur bandalagsins í kynningarmálum. Þá munu forsvarsmenn viðsemjenda ávarpa ráðstefnuna. 

Ráðstefnan er ætluð stjórnum, samninganefndum og starfsfólki aðildarfélaganna. Félögin fengu frest til 10. janúar til að tilkynna skrifstofu bandalagsins um fulltrúa sína á ráðstefnunni og hafa mörg þeirra gert það en þó ekki öll. BHM hvetur þau aðildarfélög sem ekki hafa enn tilkynnt um fulltrúa sína til að gera það hið fyrsta.