Borgaraleg skylda opinberra starfsmanna – umsögn BHM

26.3.2020

Bandalag háskólamanna tók til umsagnar frumvarp til breytinga á lögum um almannavarnir sem snúa að borgaralegri skyldu starfsmanna opinberra aðila. Breytingarnar fela í sér heimild til þess að breyta starfsskyldum opinberra starfsmanna tímabundið í þágu almannaheilla.

Að mati BHM endurspeglar frumvarpið vel þær ríku skyldur sem hvíla á opinberum starfsmönnum og kröfur sem gerðar eru til þeirra. BHM hefur á umliðnum árum ítrekað bent á að mun ríkari skyldur hvíli á opinberum starfsmönnum en starfsmönnum á almenna vinnumarkaðnum skv. lögum og kjarasamningum. Samt sem áður hafa þeir fyrrnefndu almennt lægri laun er greitt er fyrir sambærileg störf á almennum vinnumarkaði. Það er augljóslega óásættanlegt.

Tillit skal tekið til aðstæðna starfsfólks

Í umsögn sinni benti BHM á mikilvægi þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna starfsmanna hverju sinni. BHM fagnar því að eftirfarandi athugasemd var bætt við greinargerð með frumvarpinu:

„Við þessar aðstæður verður þó ávallt að líta til aðstæðna starfsmanna hverju sinni, svo sem ef starfsmaður, eða annar einstaklingur sem hann ber ábyrgð á, glímir við undirliggjandi sjúkdóm eða aðstæður eru að öðru leyti slíkar að breytt starfsvið myndi stefna öryggi eða heilbrigði hans, eða þess sem hann ber ábyrgð á, í hættu. Við slíkar aðstæður skal starfsmaður vera undanþeginn skyldu ákvæðisins.“

Atriði sem þurfa að vera skýrari

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í ítrustu tilfellum verði heimilt að færa starfsmann milli sveitarfélaga, innan sveitarfélags eða milli ríkis og sveitarfélaga. BHM telur mikilvægt að skýra betur hvað átt er við með ítrustu tilfelli.

BHM bendir einnig á mikilvægi þess að skýrt sé tekið fram í frumvarpinu að starfsmaður eigi ekki að verða fyrir kostnaði vegna þessara tímabundnu breytinga. Eins þarf það að vera skýrt að verði starfsmanni gert skylt að sinna starfsskyldum sem tilheyra starfi sem betur er launað skv. kjarasamningum en það starf sem hann var ráðinn til, þá skuli greiða honum laun í samræmi við það.

Að lokum vill BHM benda á mikilvægi þess að fyllstu varkárni og meðalhófs verði gætt við beitingu þessara laga, komi til þess að þau verði virkjuð.

Nánari upplýsingar um þetta ákvæði laga má finna á þessum hlekk á upplýsingasíðu BHM um réttindamál og skyldur tengt COVID-19 faraldrinum.  

Hér má lesa umsögnina í heild sinni. 


Fréttir