Breytingar á úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM

Óhjákvæmilegt að bregðast við auknum kostnaði vegna fjölgunar umsókna um sjúkradagpeninga

17.12.2018

Á undanförnum mánuðum hefur umsóknum um sjúkradagpeninga úr Sjúkrasjóði BHM fjölgað umtalsvert. Þetta hefur haft í för með sér mjög aukinn kostnað fyrir sjóðinn en tekjur hafa ekki vaxið að sama skapi. Að mati stjórnar sjóðsins er óhjákvæmilegt að bregðast við þessari þróun til að tryggja rekstur sjóðsins. Stjórnin hefur því ákveðið að breyta úthlutunarreglum sjóðsins. 

Helstu breytingar á útlutunarreglunum eru eftirfarandi og taka þær gildi frá og með deginum í dag, 17. desember 2018:

  • Sjúkradagpeningar verða greiddir að hámarki í 9 mánuði í stað 12 mánaða áður. Umsóknir um sjúkradagpeninga sem hafa verið samþykktar fyrir 17. desember fylgja úthlutunarreglum frá 1. maí 2018 að því gefnu að umsækjandi hafi þegar orðið fyrir tekjutapi. Umsóknir sem samþykktar verða síðar fylgja nýjum úthlutunarreglum að því gefnu að tekjutap hafi orðið 17. desember eða síðar.
  • Gleraugnastyrkur verður að hámarki 30 þús.kr. á hverjum 36 mánuðum en var áður 35 þús.kr.
  • Framvegis verður styrkur vegna laser- eða augasteinaskiptaaðgerða 50 þús.kr. á hvort auga en styrkurinn var áður 55 þús.kr. á hvort auga.
  • Greidd verða 30% af útlögðum kostnaði vegna tannviðgerða sjóðfélaga nái heildarkostnaður 120 þús.kr. á 12 mánaða tímabili. Hámarksstyrkur á hverju 12 mánaða tímabili verður 150 þús.kr. Áður voru greidd 40% útlagðs kostnaðar sem náði 90 þús.kr. en þó að hámarki 180 þús.kr. á hverju tímabili.
  • Heilsuræktarstyrkur verður 12 þús.kr. á hverju 12 mánaða tímabili í stað 25 þús.kr. áður.
  • Styrkur vegna meðferðar á líkama og sál verður 50 þús.kr. að hámarki á 12 mánaða tímabili eða 70% útlagðs kostnaðar. Styrkurinn var 55 þús.kr. áður eða 80% af útlögðum kostnaði á 12 mánaða tímabili.
  • Fæðingarstyrkur verður framvegis 100 þús.kr. vegna hvers barns en var áður 120 þús.kr.
  • Tækni- og glasafjóvgunarstyrkur verður framvegis veittur vegna fyrstu frjóvgunar að baki hverju fæddu barni. Áður voru aðeins ákvæði um hámarksfjárhæð styrks á hverju ári.
Stjórn Sjúkrasjóðs BHM bindur vonir við að framangreindar breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins dugi til að koma rekstri hans í jafnvægi. Stjórnin mun fylgjast grannt með framvindu mála á næstunni og bregðast við ef sýnt þykir að gera verði frekari ráðstafanir til að tryggja reksturinn.


Úthlutunarreglur Sjúkrasjóðs BHM frá og með 17. desember 2018


Fréttir