Breytingar á úthlutunarreglum Styrktarsjóðs og Sjúkrasjóðs

Óhjákvæmilegt að bregðast við mikilli fjölgun umsókna um sjúkradagpeninga

29.3.2019

Stjórnir Sjúkrasjóðs BHM og Styrktarsjóðs BHM hafa ákveðið að breyta úthlutunarreglum sjóðanna til að laga rekstur þeirra að breyttum aðstæðum. Umsóknum um sjúkradagpeninga hefur fjölgað verulega á undanförnum mánuðum og hefur það haft í för með sér mjög aukinn kostnað fyrir sjóðina. Tekjur hafa hins vegar ekki vaxið að sama skapi. Að mati stjórna sjóðanna er óhjákvæmilegt að bregðast við þessari þróun til að koma rekstri þeirra í jafnvægi. 

Helstu breytingar á úthlutunarreglunum Styrktarsjóðs BHM (fyrir félagsmenn á opinberum vinnumarkaði) eru eftirfarandi og taka þær gildi frá og með deginum í dag, 29. mars 2019:

  • Veittur verður styrkur vegna tannviðgerða sem nemur 20% af kostnaði umfram kr. 120.000. Áður var veittur styrkur sem samsvaraði 30% af kostnaði umfram kr. 100.000. Hámarksstyrkur verður áfram kr. 200.000 á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Styrkur vegna kaupa á gleraugum eða augasteinaaðgerða verður að hámarki kr. 20.000 á 36 mánaða tímabili. Áður var veittur 50.000 kr. styrkur vegna aðgerðar á öðru auga eða 100.000 kr. styrkur vegna aðgerðar á báðum augum á 10 ára fresti. Einnig voru greiddar kr. 30.000 vegna kaupa á gleraugum á þriggja ára fresti.
  • Fæðingarstyrkur verður framvegis kr. 200.000 en var áður kr. 215.000.
  • Sjúkradagpeningar verða framvegis greiddir í að hámarki 8 mánuði en voru áður greiddir í 9 mánuði að hámarki.

Úthlutunarreglur Styrktarsjóðs BHM frá og með 29. mars 2019

Helstu breytingar á úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM (fyrir félagsmenn á almennum vinnumarkaði) eru eftirfarandi og taka þær gildi frá og með nk. mánudegi, 1. apríl 2019:

  • Sjúkradagpeningar verða framvegis 70% af grunni iðgjaldagreiðslna sjóðfélaga en voru 80% áður.
  • Styrkir vegna kaupa á gleraugum og vegna laser- eða augasteinaaðgerða falla niður.
  • Styrkir vegna tannviðgerða falla niður.

Úthlutunarreglur Sjúkrasjóðs BHM frá og með 1. apríl 2019

Þess má að lokum geta að aðildarfélög BHM munu leggja áherslu á hækkun iðgjalda í Styrktarsjóð í yfirstandandi kjaraviðræðum þeirra við ríki og sveitarfélög.

Tengd frétt:

Breytingar á úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM (17.12.2018)


Fréttir