Dómurinn stenst ekki skoðun

Yfirlýsing frá Bandalagi háskólamanna vegna dóms sem féll í máli íslenska ríkisins gegn FÍN

24.6.2020

Bandalag háskólamanna lýsir furðu vegna dóms Félagsdóms í máli íslenska ríkisins gegn Félagi íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) sem kveðinn var upp í gær. BHM telur að dómurinn sé rangur og standist ekki lögfræðilega skoðun.

Málavextir eru í grófum dráttum þeir að í byrjun apríl sl. undirrituðu fulltrúar ríkisins og FÍN samkomulag um breytingu og framlengingu á gildandi kjarasamningi mili aðila. Samkomulagið var borið undir atkvæði félagsmanna í rafrænni atkvæðagreiðslu sem lyktaði þannig að 265 félagsmenn samþykktu samkomulagið, 278 höfnuðu því en 21 skilaði auðu. FÍN leit svo á að samkomulagið hefði verið fellt en ríkið var ósammála því mati og stefndi félaginu fyrir Félagsdóm. 

Í meginatriðum telur ríkið að líta beri til ákvæða laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur við mat á niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar en þau lög gilda um almenna vinnumarkaðinn. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna telst undirritaður kjarasamningur gildur nema hann sé felldur með meirihluta greiddra atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu. Með vísan til þessa lagaákvæðis telur ríkið að samkomulagið hafi verið samþykkt enda voru félagsmenn sem annaðhvort samþykktu það eða skiluðu auðu fleiri en þeir sem höfnuðu því. Í stuttu máli féllst Félagsdómur á þennan málatilbúnað ríksins.

BHM hafnar algjörlega niðurstöðu Félagsdóms í þessu máli og þeim lagarökum sem hún byggir á. Fyrir það fyrsta gilda sérstök lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fráleitt er að halda því fram að ákvæði laga sem gilda um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði geti átt við um kjarasamning milli aðildarfélags BHM og ríkisins nema það sé sérstaklega tekið fram í lögum.

Félagsdómur beitir lögjöfnun en það er einungis heimilt í algjörum undantekningartilvikum og getur ekki átt við í þessu máli. Auk þess hefur FÍN fært fram margvísleg lagarök fyrir því að við mat á niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar sé rétt að horfa eingöngu til gildra atkvæða en telja ekki með auð eða ógild atkvæði. 

BHM telur engin rök standa til þess að félagsmaður sem skilar auðum atkvæðaseðli, og tekur þannig ekki afstöðu með eða á móti kjarasamningi, sé með því afstöðuleysi að samþykkja kjarasamning. 

BHM undrast að Félagsdómur hafi kosið að hafna eða líta framhjá ítarlegum og vönduðum rökstuðningi FÍN í málinu.