,,Ég lagði sérstaka áherslu á að koma efnisatriðum þessarar yfirlýsingar til framkvæmda“

Sagði heilbrigðisráðherra í pallborðsumræðum um yfirlýsingu sem hún undirritaði árið 2018 í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga BHM

17.9.2021

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason
    Heilbrigdi2025
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason
  • Heilbrigdi2025_salur2
  • Heilbrigdi2025_salur1

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, var á meðal þeirra sem sátu fyrir svörum á pallborðsumræðum BHM, Læknafélags Íslands og Félags hjúkrunarfræðinga sem titlaðar voru Heilbrigði 2025 og lauk klukkan tólf á hádegi í dag.

Yfirlýsingin sem undirrituð var í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga BHM

Heilbrigðisráðherra skrifaði undir yfirlýsingu ásamt fjármála- og forsætisráðherra í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga BHM árið 2018. Í yfirlýsingunni var talað um að farið yrði í umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í samráði við BHM. Svandís Svavarsdóttir var spurð hvar þetta verkefni væri statt núna.

Heilbrigðisráðherra sagði að hún hefði lagt áherslu á að koma efnisatriðum þessara yfirlýsingar til framkvæmda. Hún hefði stofnað sérstakt teymi með fulltrúum ráðuneytana sem hefðu undirritað hana og þetta teymi kom með tillögur að aðgerðum. Tillögurnar hafi verið allmargar en í aðalatriðum fjórar.

Mannaflaspá og landsráð um menntun og mönnun fyrir þrjátíu heilbrigðisstéttir

Í fyrsta lagi hafi verið gerð hafi verið mannaflaspá fyrir heilbrigðiskerfið. Það hafi að vísu reynst erfitt verkefni því fyrst hefði þurt að meta hver staða mönnunar væri í heilbrigðiskerfinu,til að geta byggt upp framtíðarsýn.

Heilbrigðisráðherra ræddi einnig að hún hefði sett á laggirnar Landsráð um menntun og mönnun í heilbrigðisþjónustu, sem hefði það hlutverk að stilla saman strengi menntastofnana, spítala, heilsugæslu og þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu. Þetta hafi verið gert til að tryggja mönnum í hverri stétt fyrir sig, því ekki mætti gleyma að um væri að ræða um það bil þrjátíu stéttir, en ekki bara tvær til þrjár. Þessi vinna væri nú vel á veg komin.

Heilbrigðisstefna á breiðum grundvelli

Þá hafði þurft að fullvinna heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Það hafi verið haldin vinnustofa og svo hafi verið haldið heilbrigðisþing. Á þinginu hafi heilbrigðisstefnan verið unnin á breiðum grundvelli og samþykkt og í kjölfarið lögð fyrir Alþingi. Þar var hún samþykkt með 45 atkvæðum og enginn greitt atkvæði gegn henni. Heilbrigðisráðherra sagði að hún hefði lagt áherslu á að stefnan yrði unnin á breiðum grunni heilbrigðisþingsins en ekki aðeins ríkisstjórnarinnar því markmiðið væri að vinna áfram á þeim breiða grundvelli.

Heilbrigðiskerfinu er haldið uppi af fólki 

Hvað varðaði umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta þá væri það stórt verkefni. Heilbrigðisráðherra vísaði í svar sitt við fyrri spurningu um aðbúnað heilbrigðisstarfsfólk en þá sagði hún að þetta væri mjög kynskiptur vinnumarkaður og mikið hefði mætt á heilbrigðisstarfsfólki vegna Covid. Það hefði sýnt sig að heilbrigðiskerfið stæði ekki og félli með byggingum eða stefnum heldur væri uppistaðan starfsfólkið sjálft. Hér væri því allt undir og þyrfti að huga að mörgum þáttum, þar á meðal stjórnun, starfsumhverfi, byggingum o.s.frv.

Heilbrigðisráðherra sagði einnig að stóra verkefnið á næstunni væri sameiginlegt fagfélögum og heilbrigðisstofnunum og það væri að skapa spennandi og hvetjandi náms- og starfsvettvang í heilbrigðisgeiranum. 


Fréttir