Ekki lengur litið á kynbundin brot sem „hversdagsleg“ eða „djók“

Fundur heildarsamtaka á vinnumarkaði, Kvenréttindafélags Íslands og Jafnréttisstofu í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna

7.3.2019

 • Barattudagur-kvenna-3
  Annadís Greta Rúdolfsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir
 • AudurAva
  Auður Ava Ólafsdóttir
 • HildurKnuts
  Hildur Knútsdóttir
 • Barattudagur-kvenna-9
 • Barattudagur-kvenna-5
 • Barattudagur-kvenna-8
 • Barattudagur-kvenna-10
 • Barattudagur-kvenna-7
 • Barattudagur-kvenna-7

#Metoo-byltingin hefur haft þau áhrif að ekki er lengur litið á kynbundin brot sem „hversdagsleg“ eða „djók“. Slík brot eru nú uppspretta almennrar reiði og gremju í samfélaginu. Skömmin hefur verið tekin frá þolendunum og send til síns heima. 

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Gyðu Margrétar Pétursdóttur og Önnudísar Gretu Rúdolfsdóttur á hádegisverðarfundi sem BHM o.fl. stóðu að í dag í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er 8. mars ár hvert. Fundurinn var haldinn á Grand Hótel Reykjavík undir yfirskriftinni ,,Þegar konur segja frá – #metoo og kraftur samstöðunnar“. 

Í erindi sínu fjölluðu þær Gyða og Annadís, sem báðar eru dósentar við Háskóla Íslands, um rannsókn sem þær hafa unnið á #metoo-sögum kvenna. Meðal annars hafa þær unnið greiningu á birtingarmyndum áreitni og ofbeldis í þessum sögum, kannað hvað sögurnar segja um stöðu þolendanna, einkenni gerenda og áhrif þeirra á þolendur. Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar innan tíðar í tímaritsgrein.

Auk þeirra fluttu rithöfundarnir Hildur Knútsdóttir og Auður Ava Ólafsdóttir erindi á fundinum. Hildur fjallaði í sínu erindi um tungumálið, karllægni þess og hvernig breytingar eru að verða á því að frumkvæði ungra kvenna. Hún ræddi líka um þróun femínismans og hvernig hver kynslóð femínista mótar sínar áherslur og baráttuaðferðir. Auður Ava sagði í sínu erindi frá athugasemdum við nýjustu skáldsögu hennar, Ungfrú Ísland, sem henni hafa borist frá karlkyns lesendum. Að hennar mati lýsa þessar athugasemdir dæmigerðu viðhorfi karla til kvenkyns rithöfunda og listamanna. 

Auk BHM voru aðstandendur fundarins ASÍ, BSRB, Kvenréttindafélag Íslands, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja.