Endurgreiðslubyrði námslána léttist

Ríkisstjórnin ræðst í aðgerðir sem BHM hefur lengi barist fyrir

16.4.2020

  • lin_auglysing

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tilkynnti í dag að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hrinda í framkvæmd tillögum starfshóps sem hún skipaði árið 2019 um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána.

Starfshópurinn var myndaður að frumkvæði BHM í tengslum við kjaraviðræður á opinberum markaði en fulltrúi BHM í hópnum var Georg Brynjarsson, hagfræðingur bandalagsins. Á þessum hlekk má lesa tillögurnar sem starfshópurinn gerði á síðasta ári ásamt rökstuðningi fyrir þeim.

BHM fagnar því hve margar tillagnana hafa náð fram að ganga enda barist lengi fyrir bættum kjörum lántakenda. Það er ljóst að þessar aðgerðir munu gagnast tugþúsundum Íslendinga og bæta kjör margra.

Lægri endurgreiðsla og ábyrgðir falla niður

Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin hefur ráðist í eru að lækka tekjutengingu milli afborgana námslána og endurgreiðsluhlutfalls á eldri námslánum. Ábyrgðarmenn um 30.000 eldri lána, sem eru í skilum, verða leystir undan ábyrgð sinni til að tryggja jafnræði milli þeirra sem tóku lán fyrir og eftir árið 2009, þegar lögum um sjóðinn var breytt. Uppgreiðsluafsláttur verður hækkaður upp í allt að 15% þegar tillögur um að bæta stuðning við greiðendur námslána verða innleiddar. Vextir námslána lækka úr 1% niður í 0,4% ásamt því að endurgreiðsluhlutfall lána lækkar, en hvort tveggja mun leiða til lægri afborgana.

Lánasjóðurinn býr að sterkri fjárhagsstöðu og fjármagnar aðgerðirnar sjálfur, lántakar njóta því þeirrar sterku fjárhagsstöðu sem þeir áttu þátt í að byggja upp. Kostnaðurinn fellur til yfir lengri tíma og mat starfshópurinn núvirtan kostnað aðgerðanna um 14 milljarða króna.