Skiptingu starfslauna milli listgreina í aukaúthlutun þarf að endurskoða tafarlaust

Áskorun til efnahags- og viðskiptanefndar frá forsvarsmönnum stéttar- og fagfélaga tónlistar- og sviðslistafólks.

12.5.2020

Áskorun til efnahags- og viðskiptanefndar

Við undirrituð, forsvarsmenn stéttar- og fagfélaga tónlistar- og sviðslistafólks lýsum yfir verulegum áhyggjum af fyrirhugaðri skiptingu í aukaúthlutun starfslauna listamanna vegna Covid-19, eins og hún birtist í breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við mál nr. 726 á þskj. 1323.

Ljóst er að félagsmenn okkar er sá hópur listamanna sem lenti einna harðast og hraðast í tekjutapi þegar faraldurinn gaus upp, þar eð allar tekjulindir þurrkuðust upp á einni nóttu með tilkomu samkomubanns.

Allir hópar listamanna finna fyrir áhrifum af Covid-19 en áhrifin eru verulega alvarleg fyrir þá hópa sem koma sinni list á framfæri frammi fyrir áhorfendum, sviðslistafólk og tónlistarfólk. Því teljum við þá aðferð að miða við hlutfallsskiptinguna, sem lög um listamannalaun mæla fyrir um og nefndin miðar við í breytingartillögu sinni vegna viðbótarframlagsins, taka lítið tillit til þeirrar stöðu sem þessar listgreinar raunverulega standa frammi fyrir í dag.

Við biðlum til nefndarinnar um að endurskoða án tafar breytingartillögu sína hvað varðar skiptingu viðbótarlaunanna milli listgreina og tryggja að þessi mikilvæga ráðstöfun nýtist best þeim sem urðu fyrir mestum áhrifum af samkomubanni stjórnvalda í Covid-faraldrinum. Við gerum okkur grein fyrir að við erum á síðasta snúningi með þessa beiðni okkar, en í ljósi þess hraða sem er á afgreiðslu þingmála um þessar mundir þá hlýtur það að teljast skiljanlegt.

Með vinsemd og virðingu,

Birna Hafstein, formaður FÍL
Bragi Valdimar Skúlason, formaður FTT
Gunnar Hrafnsson, formaður FÍH
Hallveig Rúnarsdóttir, formaður FÍT
Irma Gunnarsdóttir, formaður FÍLD
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður FLÍ
Margrét Örnólfsdóttir formaður, FLH
Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður TÍ


Fréttir