Ríkið fellst ekki á að starfsfólk í sóttkví geti frestað orlofstöku

Ekki er fallist á að starfsfólk eigi rétt á að fresta orlofstöku sinni ef því er gert að sæta sóttkví á meðan það er í orlofi. BHM lýsir yfir verulegum vonbrigðum með þessa niðurstöðu.

12.11.2021

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) ætlar ekki að endurskoða afstöðu sína til þess hvernig standa skuli að orlofsskráningu þegar starfsfólki er gert að sæta sóttkví. Ekki er fallist á að starfsfólk eigi rétt á að fresta orlofstöku sinni ef því er gert að sæta sóttkví á meðan það er í orlofi. BHM lýsir yfir verulegum vonbrigðum með þessa niðurstöðu.

BHM, ASÍ, BSRB, Félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands og Læknafélag Íslands sendu nýverið sameiginlegt erindi á KMR vegna réttarstöðu starfsfólks sem gert er að sæta sóttkví í orlofi sínu. Var það gert vegna þess að fjölmörg dæmi erum um að ríkisstofnanir neiti að breyta orlofsskráningu hjá starfsfólki hafi það þurft að sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á meðan það er í sumarfríi. Að mati samtakanna stenst þessi túlkun hvorki lög né ákvæði kjarasamninga.

„Svar þetta veldur verulegum vonbrigðum, sérstaklega í ljósi stöðu faraldursins. Það skýtur skökku við að á sama tíma og verið er að herða eina ferðina enn á sóttvarnaraðgerðum ætlar ríkið að ganga fram af hörku og óbilgirni í túlkun sinni. Það gengur beinlínis gegn markmiðum takmarkanna og dregur úr nauðsynlegri samstöðu,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Í ljósi þessarar túlkunar KMR munu ASÍ, BSRB, BHM, FÍh og LÍ skoða hvort nauðsynlegt sé að láta reyna á fyrir dómstólum hvort túlkunin standist skoðun. Yfirvöld eru því eindregið hvött til að endurskoða afstöðu sína.

Svar kjara- og mannauðssýslu ríkisins má lesa hér.

Hér má lesa erindi BHM, ASÍ, BSRB, Fíh, KÍ og LÍ í heild sinni. 


Fréttir