Fimmtungur telur að snjalltæki frá vinnuveitanda hafi mikil áhrif á einkalíf

13.7.2017

  • Mynd-med-frett-1-um-konnun-Maskinu

Um þriðjungur svarenda í könnun sem gerð var meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM hefur snjalltæki (snjallsíma, spjaldtölvu og/eða snjallúr) til umráða frá vinnuveitanda sínum. Meira en helmingur þessara félagsmanna fær oft einhvers konar skilaboð vegna vinnunnar í snjalltækið utan hefðbundins vinnutíma. Fimmtungur telur að tækið hafi mikil áhrif á hvíldartíma sinn eða samskipti við fjölskyldu og vini.

Könnunin var gerð af fyrirtækinu Maskínu ehf. dagana 5. maí til 28. júní sl. og náði til handhófsúrtaks úr félagaskrám aðildarfélaga BHM sem eru 27 að tölu. Svarendur voru 2.232 en samtals eru um 13 þúsund manns innan raða félaganna. Um 28% svarenda sögðust hafa snjallsíma til umráða frá vinnuveitanda sínum, 7% spjaldtölvu og hálft prósent snjallúr.

Meira en helmingur þeirra svarenda sem hafa snjalltæki frá vinnuveitanda kvaðst oft eða mjög oft fá einhvers konar skilaboð vegna vinnunnar í tækið utan hefðbundins vinnutíma. Um fjórðungur þeirra sagðist stundum fá slík skilaboð utan hefðbundins vinnutíma en ríflega fimmtungur sjaldan eða aldrei. Rétt er að taka fram að mjög breytilegt er eftir aðildarfélögum hversu hátt hlutfall félagsmanna hafa snjalltæki til umráða frá vinnuveitanda.

Þegar spurt var hversu oft fólk svaraði tölvupósti, símhringingu, skilaboðum eða öðru sem tengdist vinnu þess utan hefðbundins vinnutíma með snjalltæki sögðust um 40% svarenda gera það oftar en fjórum sinnum í viku og þar af hátt í 20% daglega. Um fimmtungur þeirra svarenda sem hafa snjalltæki frá vinnuveitanda sögðu að tækið hefði fremur mikil eða mjög mikil áhrif á hvíldartíma sinn eða samskipti við fjölskyldu og vini, um fjórðungur að það hefði í meðallagi mikil áhrif á þessa þætti en rúmlega helmingur sagði það hafa fremur lítil eða mjög lítil áhrif.

„Sú mynd sem birtist okkur í þessari könnun veldur nokkrum áhyggjum. Hún staðfestir það sem við töldum okkur vita. Skil milli vinnu og einkalífs hafa orðið ógreinilegri en þau voru áður með tilkomu snjalltækja. Í stað þess að veita nauðsynlegan sveigjanleika geta snjalltækin valdið því að fólk sé í vinnunni allan sólarhringinn,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.