Fjögur félög af fimm samþykktu nýjan kjarasamning

9.11.2019

Rafrænni atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning fimm aðildarfélaga BHM við ríkið lauk síðdegis í gær. Niðurstaðan varð sú að fjögur félög samþykktu samninginn en eitt félag hafnaði honum. Meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni frá Félagi íslenskra félagsvísindamanna, Fræðagarði – stéttarfélagi háskólamenntaðra, Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélagi lögfræðinga greiddi atkvæði með samningnum en meirihluti þátttakenda frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins greiddi atkvæði gegn honum.

Þessi fimm félög hafa fylgst að í kjaraviðræðum við ríkið undanfarnar vikur og undirrituðu kjarasamning hinn 22. október sl. með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Nýi kjarasamningurinn sem framangreind fjögur félög samþykktu í gær gildir til fjögurra ára, þ.e. frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023. Nánari upplýsingar verður hægt að nálgast á vefjum félaganna .

Samtals tóku 1.456 þátt í atkvæðagreiðslunni og þar af samþykktu 753 samninginn (52%) en 650 (45%) höfnuðu honum. Alls voru 2.162 á kjörskrá og því var þátttakan rúmlega 67%.

Úrslit atkvæðagreiðslu fimm aðildarfélaga BHM um nýjan kjarasamning við ríkið

 FélagSamþykktu samning (%) Höfnuðu samningi (%) Skiluðu auðu % Þátttaka (%)
FHSS 38,6 57,8 3,6 69,5
FÍF 60,0 35,7 4,3 71,4
FRG 63,9 32,2 3,9 64,2
SBU 57,7 41,1 1,2 78,7
SL 49,6 46,7 3,8 66,0