Fjölbreyttra aðgerða þörf í 2. aðgerðapakka stjórnvalda

Tillögur BHM til ríkisstjórnarinnar um úrbætur og frekari aðgerðir sem ráðast þarf í vegna heimsfaraldursins

20.4.2020

Fyrir réttri viku sendi Bandalag háskólamanna minnisblað til stýrihóps ríkisstjórnarinnar með tillögum um nauðsynlegar aðgerðir á vinnumarkaði til að sporna við efnahags- og félagslegum afleiðingum af völdum heimsfaraldursins. Í því eru teknar saman tillögur sem að mati BHM ríður mest á að hrinda í framkvæmd en jafnframt er það afstaða BHM að þegar fram í sæki þurfi að grípa til fleiri aðgerða. BHM hefur ekki fengið nein formleg viðbrögð við ábendingum sínum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM: „Í öllum kreppum felast líka tækifæri og nú er brýnt að skapa aðstæður til nýrrar atvinnustarfsemi, rannsókna og þróunar. Fyrir utan bráðaaðgerðir vegna atvinnuleysis er skynsamlegt að nýta erfiða stöðu á vinnumarkaði til að treysta stoðir velferðarkerfanna.“

Athugasemdir og tillögur BHM í stuttu máli:

 

 • Skýra þarf rétt til atvinnuleysisbóta. Það er óljóst hvort atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi hafi áhrif á rétt þeirra til atvinnuleysisbóta í framtíðinni. Í lögum er sérstaklega tekið fram að bætur til launafólks skerði ekki bótarétt í framtíðinni vegna þessara sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi, hið sama ætti að gilda um sjálfstætt starfandi.
 • Svo virðist sem úrræði ríkisstjórnarinnar um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli nái með ólíkum hætti til sjálfstætt starfandi eftir rekstrarformi. Samkvæmt Vinnumálastofnun geta sjálfstætt starfandi með rekstur á eigin kennitölu eingöngu fengið hefðbundnar atvinnuleysisbætur sem skerðast ef viðkomandi aflar tekna. Hins vegar geti sjálfstætt starfandi með sérstaka kennitölu um reksturinn minnkað starfshlutfall sitt niður í 25% og samt fengið töluvert hærri bætur en þeir sem starfa á eigin kennitölu auk þess að geta unnið samhliða því. Eini munurinn er rekstrarformið.
 • Launafólk í blandaðri starfsemi, s.s. listamenn, missa tekjur en geta aðeins sótt um bætur vegna hluta teknanna en ekki allra. Úr þessu þarf að bæta.
 • Taka þarf tillit til fólks sem er að koma úr fæðingarorlofi. Breyta þarf viðmiði tekna þannig að þær séu meðaltal heildarlauna áður en viðkomandi fór í fæðingarorlof en ekki tekjur sl. þriggja mánaða. Greiðslur í fæðingarorlofi miða aðeins við 80% heildarlauna og iðulega dreifa foreldrar þeim greiðslum á fleiri mánuði. Koma þarf í veg fyrir algjört tekjuhrap eftir fæðingarorlof.
 • Velferðarvaktina þarf að efla ásamt þjónustu við viðkvæma hópa. Fagfólk í velferðarþjónustu þarf stuðning vegna álags í núverandi ástandi.
 • Nú er gott tækifæri til þess að fjölga nýjum NPA-samningum fyrir fatlað fólk í landinu .
 • BHM leggur til að ívilnanir verði veittar til þeirra sem fara í háskólanám í greinum þar sem þörf er á meiri nýliðun.
 • Reglugerð um Nýsköpunarsjóð námsmanna þarf að breyta svo að ríkisstofnanir geti útfært 1-10 rannsóknarverkefni og sótt um styrk í sjóðinn fyrir sumarið 2020.
 • Sjálfstætt starfandi sem er gert að stöðva rekstur samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þurfa bætur eins og aðrir sem er gert að sæta sóttkví. Sem stendur eiga þessir aðilar aðeins rétt á atvinnuleysisbótum. 
 • Viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds er í litlu samræmi við tekjur margra sjálfstætt starfandi stétta og hefur bein áhrif á upphæð atvinnuleysisbóta, þetta þarf að færa til betri vegar.
 • BHM leggur til að ríki og sveitarfélög opni aftur fyrir umsóknir í menningarsjóði, s.s. listamannalaun, leiklistarráð, menningarstyrki sveitarfélaga o.fl. Þetta myndi skapa tekjur fyrir listafólk til að vinna í nýjum verkefnum í stað þess að reyna að bæta tap vegna verkefna sem falla niður.
 • BHM leggur til að listamönnum verði greitt fyrir endursýningar í fjölmiðlum, m.a. á RÚV.
 • Nauðsynlegt er að greina hvernig úrræði eru að virka fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga við núverandi aðstæður sem og í ljósi þeirra úrræða sem þegar hefur verið gripið til og verður hugsanlega gripið til.
 • Þá leggur BHM til að LÍN skilgreini betur hvað séu „verulegir fjárhagsörðugleikar“ svo ljóst sé hverjir eigi rétt á tímabundinni undanþágu frá afborgunum vegna fjárhagsörðugleika. BHM leggur einnig til að sjóðurinn bjóði upp á almennar, rafrænar og einfaldar aðgerðir til að létta greiðslubyrði.