Fjölmenni og fjörugar umræður á stefnumótunarþingi BHM

9.3.2017

  • 2009-01-01-00.00.00-124
    Frá stefnumótunarþingi BHM sem haldið var í mars 2017.
  • 2009-01-01-00.00.00-114
    Önnur mynd frá stefnumótunarþingi BHM í mars 2017.
  • 2009-01-01-00.00.00-106
  • 2009-01-01-00.00.00-116
  • 2009-01-01-00.00.00-122

Um eitthundrað fulltrúar aðildarfélaga BHM komu saman og ræddu áherslur og baráttumál bandalagsins á stefnumótunarþingi sem haldið var í Reykjavík í dag. Verkefni þingsins var að rýna og endurmeta núgildandi stefnu bandalagsins sem mótuð var og samþykkt á aðalfundi þess árið 2013.

Fyrirkomulag þingsins var með þeim hætti að þátttakendum var skipt niður á samtals 10 borð og fór umræðan fram í fjórum klukkustundarlöngum lotum. Í hverri lotu var tekið fyrir eitt umræðuefni eða málefnasvið. Í fyrstu lotu var rætt um menntun og þekkingarumhverfi, kjara- og lífeyrismál í annarri lotu, jafnrétti á vinnumarkaði í þriðju lotu og loks atvinnumál og vinnumarkað framtíðarinnar í fjórðu og síðustu lotu. Í umræðunum komu fram margvísleg sjónarmið og hugmyndir og sköpuðust mjög líflegar umræður á borðunum.

Öll sjónarmið sem fram komu á borðunum voru skráð niður og verður unnið úr þessu efni á næstunni og niðurstöður umræðunnar dregnar saman. Þær verða síðan nýttar við samningu tillagna að nýrri stefnu BHM sem lagðar verða fyrir formannaráð bandalagsins og í kjölfarið ræddar og afgreiddar á aðalfundi BHM sem fram fer hinn 18. maí nk.

Samkvæmt grein 3.8. í lögum BHM er stefnumótunarþing vettvangur samráðs og stefnumótunar aðildarfélaga bandalagsins. Niðurstöður þingsins skulu afgreiddar sem ályktanir og tillögur til umræðu og afgreiðslu á aðalfundi BHM. Á stefnumótunarþingi skulu eiga sæti tveir fulltrúar hvers aðildarfélags en auk þess skulu aðildarfélög tilnefna einn fulltrúa fyrir hvert byrjað hundrað félagsmanna umfram eitt hundrað.