Fjórða iðnbyltingin – ert þú tilbúin/n?

Opinn umræðufundur BHM á Akureyri 6. september

26.8.2019

  • lysa_BHM

BHM mun standa fyrir opnum umræðufundi um fjórðu iðnbyltinguna og vinnumarkaðinn á Lýsu – rokkhátíð samtalsins sem fram fer á Akureyri dagana 6. og 7. september nk.

Því hefur verið spáð að á komandi árum muni stór hluti starfa á íslenskum vinnumarkaði ýmist taka miklum breytingum eða hverfa alveg vegna tækniframfara sem kenndar hafa verið við fjórðu iðnbyltinguna. Hér er einkum vísað til gervigreindar og aukinnar sjálfvirkni á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins. Gangi þessi spá eftir er ljóst að framundan eru miklar breytingar á vinnumarkaði. 

En hvernig á fólk að búa sig undir þessar breytingar? Hvaða þekking og færni verða eftirsótt á vinnumarkaði árið 2030? Og hvaða breytingar þarf að gera á menntakerfinu, þjálfun og starfsþróun á vinnustöðum?

Þessar spurningar og ýmsar fleiri verða ræddar á opnum umræðufundi BHM sem fram fer föstudaginn 6. september í menningarhúsinu Hofi undir yfirskriftinni ,,Fjórða iðnbyltingin – ert þú tilbúin/n?“. Þar munu sérfræðingar sitja fyrir svörum og ræða almennt um þróunina og viðbrögð við henni. Meðal þátttakenda verða Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur og formaður nefndar forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna; Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, formaður tækninefndar vísinda- og tækniráðs og forstöðumaður hjá Veitum; og Benedikt Barðason, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, mun stýra umræðunni.

Fundurinn verður haldinn í salnum Nausti í Hofi föstudaginn 6. september milli kl. 10:00 og 11:00.

Allt áhugafólk um fjórðu iðnbyltinguna, menntamál og starfsþróun, er hvatt til að mæta og taka þátt í umræðunni.