Formaður og framkvæmdastjóri BHM sátu stjórnarfund Norræna verkalýðssambandsins í Osló

Formaður BSRB tekur við formennsku í sambandinu um næstu áramót

22.11.2018

  • Prufa
    NFS_stjornarfundur_2018
    Á myndinni eru frá vinstri: Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Formaður og framkvæmdastjóri BHM sátu í vikunni fund stjórnar Norræna verkalýðssambandsins (Nordens fackliga samorganisation - NFS) í Osló en aðild bandalagsins að sambandinu var formlega samþykkt í apríl sl. Á fundinum var m.a. farið yfir ýmis verkefni sem eru á döfinni hjá sambandinu og rætt um þing sambandsins sem haldið verður í september á næsta ári. Einnig var fjallað um undirbúning vegna næsta þings Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (International Trade Union Confederation - ITUC), sem haldið verður nú í desember, og undirbúning vegna þings Evrópusambands verkalýðsfélaga (European Trade Union Confederation - ETUC) sem haldið verður á vormánuðum.

Á fundinum var samþykkt að formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, taki við formennsku í stjórn NFS um næstu áramót. Hún tekur við embættinu af formanni alþýðusambands Svíþjóðar (LO), Karl-Petter Thorwaldsson, og mun gegna því út árið 2019. Í þessu sambandi má geta þess að Ísland tekur við formennsku í Norðurlandaráði á næsta ári en NFS er viðurkenndur fulltrúi norræns launafólks á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart þessum aðilum.

NFS var stofnað árið 1972 og er samstarfsvettvangur 16 heildarsamtaka launafólks frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Hlutverk NFS er að stuðla að nánu samstarfi milli aðildarsamtaka þess og standa að sameiginlegri hagsmunagæslu. Þrenn íslensk heildarsamtök eiga aðild að sambandinu: ASÍ, BHM og BSRB.  Stjórn NFS fundar tvisvar á ári og verður næsti stjórnarfundur haldinn í apríl á næsta ári.

 

 


Fréttir