Formaður og varaformaður BHM framvegis kosnir í rafrænni kosningu

20.6.2019

  • IMG_0632

Framvegis munu aðalfundarfulltrúar kjósa formann og varaformann BHM í rafrænni kosningu í aðdraganda aðalfundar. Þá verður fastanefndum bandalagsins fjölgað úr þremur í fimm. Þetta er meðal þess sem felst í breytingum á lögum BHM sem samþykktar voru á aðalfundi bandalagsins 23. maí sl. og á framhaldsaðalfundi sem fram fór í dag.

Fyrir aðalfundi BHM lágu ýmsar tillögur til breytinga á lögum bandalagsins, annars vegar frá lagabreytinganefnd og hins vegar frá formanni Félags íslenskra náttúrufræðinga. Ekki tókst að ljúka afgreiðslu allra þessara tillagna og var því ákveðið að boða til framhaldsaðalfundar þar sem afgreiðsla lagabreytingatillagna var eina málið á dagskrá. Sérstakri nefnd, sem formannaráð BHM skipaði, var falið að fara yfir þær tillögur sem óafgreiddar voru. Jafnframt lagði nefndin línur um afgreiðslu þeirra á framhaldsaðalfundi. Framhaldsaðalfundurinn var haldinn í dag, 20. júní, í húsakynnum BHM að Borgartúni 6, og voru þar afgreiddar þær lagabreytingatillögur sem ekki tókst að afgreiða á aðalfundinum.

Helstu efnislegar breytingar á lögum BHM sem samþykktar voru á aðalfundi og framhaldsaðalfundi 2019:

  • Í stað uppstillingarnefndar mun aðalfundur framvegis kjósa svokallaða framboðsnefnd sem hefur það hlutverk að auglýsa eftir frambjóðendum í trúnaðarstörf innan bandalagsins og skila lista með frambjóðendum í kjöri til kjörstjórnar BHM fyrir aðalfund. (grein 3.2.)
  • Formaður og varaformaður BHM verða framvegis kosnir í rafrænni kosningu af aðalfundarfulltrúum eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund. Kjörtímabil er óbreytt, tvö ár í báðum tilvikum. (grein 5.0.1)
  • Fastanefndir bandalagsins verða framvegis fimm en hafa til þessa verið þrjár. Tvær nýjar fastanefndir eru kjörstjórn (sem sér um framkvæmd kosninga innan bandalagsins) og lagabreytinganefnd. (grein 6.0.)
  • Formannaráð BHM mun framvegis tilnefna fulltrúa bandalagsins í ráð, stjórnir, sjóði og nefndir sem BHM hefur tilnefningarrétt til samkvæmt landslögum eða reglugerðum. Til þessa hefur stjórn BHM haft slíkar tilnefningar með höndum. (grein 7.0.)
  • Ákvarðanir aðalfundar um árgjald aðildarfélaga til BHM munu framvegis ekki taka gildi fyrr en fyrsta dag reikningsárs eftir aðalfund. (grein 8.0.) 

Lagabreytingatillögur sem afgreiddar voru á aðalfundi og framhaldsaðalfundi BHM 2019

Lög BHM í heild með áorðnum breytingum