Félagslegur stöðugleiki þarf að fá jafn mikið vægi og efnahagslegur stöðugleiki

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti aðalræðuna á þingi NFS í gær

4.9.2019

  • nfs222
    Frá vinstri: Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB; Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra; Drífa Snædal, forseti ASÍ; og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherrra hélt aðalræðuna við setningu þings Norræna verkalýðssambandsins (Nordens Fackliga Samorganisation – NFS) í Malmö í gær, 2. september. Þar eru saman komnir fulltrúar 14 heildarsamtaka launafólks á Norðurlöndum, þeirra á meðal formaður BHM, Þórunn Sveinbjarnardóttir, en aðild bandalagsins að NFS var formlega samþykkt á síðasta ári. BSRB gegnir formennsku í NFS um þessar mundir og flutti formaður bandlagsins, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, setningarávarp þingsins í gær.

Í ræðu sinni fór forsætisráðherra yfir helstu sameiginlegu verkefni verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálanna. Hún ræddi einnig stöðuna á íslenskum vinnumarkaði og sagði m.a. að félagslegur stöðugleiki þyrfti að fá jafn mikið vægi og efnhagslegur stöðugleiki. Þá fór hún yfir stöðu jafnréttismála og baráttuna gegn ofbeldi í ljósi áhrifa #metoo-byltingarinnar. Í því sambandi nefndi Katrín sérstaklega að #metoo-byltingin hefði varpað ljósi á misréttið sem erlendar konur á íslenskum vinnumarkaði mega þola. Katrín sagði baráttuna gegn mansali og nauðungarvinnu vera jafn aðkallandi hér á landi eins og í stærri samfélögum. Enn fremur bað forsætisráðherra stéttarfélögin sérstaklega að íhuga hlutverk sitt í baráttunni gegn loftlagsbreytingum og vék að áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar á vinnumarkaðinn.

Í morgun fundaði Katrín með formönnum aðildarsamtaka NFS og var þar m.a. rætt um skipulag kjaraviðræðna á Norðurlöndunum og mismunandi útfærslur innan hins svokallaða norræna vinnumarkaðslíkans. Var myndin hér að neðan tekin við þetta tækifæri.

Hvað er NFS?

Norræna verkalýðssambandið var stofnað árið 1972 og er samstarfsvettvangur 14 heildarsamtaka launafólks frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þrenn íslensk heildarsamtök eiga aðild að sambandinu: ASÍ, BHM og BSRB. NFS er viðurkenndur fulltrúi norræns launafólks á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart þessum aðilum. Þá hafa samtök innan NFS víðtækt samráð og samstarf er varðar málefni evrópsks vinnumarkaðar og á vettvangi Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC). Enn fremur tekur NFS þátt í samstarfi við verklýðshreyfingu í Eystrasaltsríkjunum og gegnir samræmingarhlutverki gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (ITUC) og Ráðgjafarnefnd verkalýðshreyfingarinnar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (TUAC). 

 


Fréttir