Vel sóttur morgunfundur um lífeyrismál

27.11.2018

 • Vala
  Vala Rebekka Þorsteinsdóttir, lögfræðingur hjá LSR.
 • Bjorn
  Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu.
 • Stefan
  Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða.
 • Unnur
  Unnur Pétursdóttir, formaður FS og fulltrúi BHM í stjórn LSR.
 • Bragi
  Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs - stéttarfélags háskólamenntaðra.
 • Fundur3
 • Fundur1
 • Fundur2

Á annað hundrað manns mættu á opinn fund BHM um lífeyrismál sem haldinn var í morgun á Hótel Reykjavík Natura. Yfirskrift fundarins var „Lífeyriskerfið 101“ og var þar (eins og yfirskriftin gefur til kynna) fjallað um ýmis grundvallaratriði lífeyriskerfisins, helstu einkenni þess og lagaumgjörð, eignir og skuldbindingar lífeyrissjóða, iðgjöld og réttindi sjóðfélaga o.fl. Einnig var íslenska kerfið borið saman við hliðstæð kerfi í nágrannalöndum og rætt um mögulega framtíðarþróun kerfisins. Frummælendur á fundinum voru fjórir: Vala Rebekka Þorsteinsdóttir, lögfræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR); Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu; Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða og Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara og fulltrúi BHM í stjórn LSR. Fundarstjóri var Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs – stéttarfélags háskólamenntaðra. 

Í erindi sínu fjallaði Vala Rebekka Þorsteinsdóttir, lögfræðingur hjá LSR, um grunnstoðir lífeyriskerfisins, mismunandi réttindaávinnslu, löggjöf um lífeyrissjóði og helstu lagareglur. Þá ræddi hún sérstaklega um nýlegar breytingar á A-deild LSR, séreignarsparnað og samspil greiðslna frá lífeyrissjóðum við greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR).  

Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, bar stærð og eignasamsetningu íslenska lífeyriskerfisins saman við lífeyriskerfi í nágrannalöndunum. Einnig fjallaði hann um nýlegar og fyrirhugaðar umbætur á lífeyriskerfum í Danmörku og Hollandi.

Stefán Halldórsson, verkefnastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, ræddi niðurstöður tveggja útteka á „nægjanleika“ lífeyrissparnaðar í mismunandi löndum. Niðurstöðurnar leiða í ljós að íslenska lífeyriskerfið ver eldri borgara vel gegn fátækt og einnig komu meðal- og hátekjuhópar hér vel út úr samanburðinum.

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara og fulltrúi BHM í stjórn LSR, rýndi í framtíð lífeyriskerfisins. Hún ræddi m.a. um hvaða áhrif nýlegar breytingar á fyrirkomulagi lífeyrismála opinberra starfsmanna muni hafa á stöðu sjóðfélaga og þróun kerfisins. Þá velti hún fyrir sér hvernig fjárfestingar lífeyrissjóðanna muni þróast á komandi árum, mögulegum sameiningum sjóða o.fl.

Að lokum er rétt að geta þess að til stóð að streyma fundinum á streymissíðu BHM en því miður misfórst það vegna bilunar í tækjabúnaði og er beðist velvirðingar á því.

 

 

 

 


Fréttir