Gerum sálfræðiþjónustu að almennum réttindum

Sálfræðingafélag Íslands sendi heilbrigðisráðherra eftirfarandi yfirlýsingu í dag

27.4.2020

Á tímum sem þessum er óvissan í þjóðfélagi okkar mikil. Í kjölfar þess að vinna bug á þeim aðstæðum sem COVID 19 faraldurinn hefur haft í för með sér þá er ljóst að okkar bíður langt og strangt uppbyggingarferli. Það eru ekki einungis efnahagslegar áskoranir heldur einnig á sviði lýðheilsu og geðheilbrigðis.

Aðgengi að sálfræðiþjónustu er því miður enn of takmarkað og fólk sem glímir við geðrænan vanda þarf oft að bíða of lengi eftir þjónustu og standa sjálft straum af miklum kostnaði.

Það eru mikil gleðitíðindi að fjölgað verði stöðugildum sálfræðinga á fyrstu línu stofnunum eins og á Heilsugæslunni. Með þeim hætti er verið að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu og vonandi stytta biðtíma eftir slíkri þjónustu. Þrátt fyrir að það sé skref í rétta átt óttumst við að það eitt og sér dugi ekki til.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp Þorgerðar K. Gunnarsdóttur auk 22 annarra þingmanna úr öllum flokkum á þingi um breytingar á lögum um Sjúkratryggingar. Markmið frumvarpsins er að tryggja að sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga og þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Sálfræðingafélag Íslands sendi inn umsögn um málið í haust, hefur mætt á fund Velferðarnefndar og áður mælt með því að frumvarpið verði samþykkt.

Sálfræðingafélag Íslands skorar á alla þingmenn og heilbrigðisráðherra að setja afgreiðslu málsins í forgang. Sálfræðingafélag Íslands er tilbúið til umræðu um málefnið við þá sem þess óska.

Tryggjum öllum, óháð efnahag, aðgengi að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Það eru almenn réttindi og ættu ekki að teljast til forréttinda. Fjárfesting í mannauði og geðheilbrigði er þjóðinni hagkvæm þegar litið er til lengri tíma.

Oft var nauðsyn en nú er brýn þörf.

Tryggvi Guðjón Ingason
Formaður Sálfræðingafélags Íslands