Gleðiefni að kröfum BHM var mætt um lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta – nú þarf bara að hækka bæturnar

Umsögn BHM um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar).

2.9.2020

BHM metur það svo að með frumvarpinu séu stigin ýmis ágætis skref hvort heldur er með nýjum aðgerðum eða framlengingu á aðgerðum sem hófust fyrr, eins og þeirri að framlengja gildistíma ákvæða um laun einstaklinga sem sæta sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.

Óskýr réttarstaða foreldra vegna lokunar leikskóla og skóla

Nokkrum skólum og/eða leikskólum hefur verið lokað tímabundið vegna starfsfólks sem sætir sóttkví. Í slíkum tilvikum er réttarstaða foreldra og forráðamanna óljós og réttindi jafnvel lítil eða engin. Sú staða getur til dæmis komið upp að foreldrar/forráðamenn hafi klárað rétt til launa í veikindum barna og geti ekki unnið að heiman. Það er slæm staða þegar foreldri eða forráðamaður neyðist til að vera í ólaunuðu leyfi heima með barni/börnum sem ekki komast til skóla/leikskóla þar eð starfsmenn þar sæta sóttkví.

Framlengja þarf ákvæði sem snýr að sjálfstætt starfandi

Í frumvarpinu er lagt er til að hlutabótaleið verði framlengd um tvo mánuði, eða út október 2020 sem er jákvætt. Hins vegar telur BHM að slæmt að 3. mgr. XIV. ákvæðis laga um atvinnuleysistryggingar falli niður. Ákvæði þetta fjallar um sjálfstætt starfandi einstaklinga með mismunandi rekstrarform sem þurftu að nýta sér hlutabótaleiðina, og var sett inn því staða þeirra var verri en launafólks. BHM sér enga ástæðu til að láta þetta ákvæði falla niður, það ætti að framlengja jafn lengi og hlutabótaleið eða út október 2020.

BHM ítrekar að nauðsynlegt er að hækka lágmarksbætur og tekjutengdar bætur

Það er jákvætt skref að mati BHM að atvinnutengd starfsendurhæfing verði látin svars til vinnuframlags við mat á rétti til atvinnuleysisbóta og að fólk hafi möguleika á að stunda nám á meðan það er í atvinnuleit.

Hvað ákvæði b-liðar 9. gr. frumvarpsins varðar er það gleðiefni að gengið var að kröfum BHM um að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta yrði framlengt úr þremur mánuðum í sex. En betur má ef duga skal. BHM hefur bent á nauðsyn þess að hækka lágmarksbætur og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta og ítrekar það hér með. Hefur BHM bent á að háskólamenntaður sérfræðingur sem horfir fram á atvinnuleysi í eitt ár í óbreyttu kerfi verður fyrir um 55% tekjuskerðingu á ársgrundvelli. Með lengingu tímabils tekjutengingar úr þremur mánuðum í sex er stigið skref í rétta átt. Nauðsynlegt er engu að síður að hækka grunnupphæð atvinnuleysisbóta sem og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Óvissa minnkar ekki þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda

Framlenging hlutabótaleiðar um tvo mánuði er ekki til þess fallin að eyða óvissu starfsfólks og fyrirtækja. Óhætt er að fullyrða að þrengingar á vinnumarkaði verði enn til staðar þann 31. október næstkomandi. Heppilegra er að mati BHM að stjórnvöld horfi til lengri tíma í þessum efnum og bjóði starfsfólki og fyrirtækjum upp á meiri fyrirsjáanleika en verður að óbreyttu.

Umsögnina um frumvarpið (þingskjal 2036 - 972. mál) má lesa í heild sinni hér á vef Alþingis


Fréttir